139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:19]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Svo að ég tali fyrst um verklagið þá hefur mér sjaldan verið eins misboðið og að eiga að mæla fyrir þessu í fjárlaganefnd í gær með tveggja tíma fyrirvara. Það lá fyrir að samstarfskona mín í þessu verki, Eygló Harðardóttir, gæti ekki komið og hún var ekki búin að skila sínum hluta inn. Ég gat því aðeins lítillega reifað þau sjónarmið sem hún lagði mesta áherslu á. Og ég skil ekki, ég bara get ekki sagt það nógu oft, að það liggi svona mikið á. Er það kapphlaupið við undirskriftirnar á kjósum.is eða er það eitthvað enn annað?

Það er satt sem þingmaðurinn sagði, áhættan er allt of mikil og það er allt of lítið sem þarf að fara úrskeiðis. Við vitum að efnahagslífið er mjög óstöðugt og það gengur ekki alltaf allt eins og við vildum. Örlítið flökt á gengi, örlítið minni innheimtur, örlitlar tafir á málinu þýðir tugi ef ekki hundruð milljarða.

Þessi samningur er betri en það er líka betra að vera hengdur eftir helgi en á morgun. Þetta er ekki góður samningur vegna þess að það er ekkert gott við Icesave.