139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Við erum sammála þegar kemur að þessum álitaefnum Og vinnulagið eitt og sér, að geta ekki gefið þessu máli — við erum kannski að tala um einn eða tvo daga þannig að menn gætu farið með yfirveguðum hætti yfir umsagnir sínar og álit hvað þessi mál áhrærir.

Af hverju liggur svona á að klára umræðu um þetta mál í skjóli nætur? Við erum, með þeirri umræðu, mögulega að leggja á herðar íslensku þjóðarinnar gríðarlegar skuldbindingar, og ég spyr hvort slíkt mál eigi ekki skilið dagsljós og birtu og að menn tali fyrir opnum tjöldum, sem því miður eru dregin fyrir þessa dagana.

Mig langar líka að rifja það upp og spyrja hv. þingmann að því — ég hef tekið eftir því í könnunum að andstaðan við þessa samninga og þessar skuldbindingar eykst eftir því sem fólk er yngra. Eftir því sem fólk er yngra þeim mun fleiri eru mótfallnir þessum samningi. Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju heldur hv. þingmaður að svo sé? Ég hef mína tilgátu í þeim efnum. Við erum að tala þar um þær framtíðarkynslóðir sem ætla að búa í þessu landi en munu þurfa að greiða þennan reikning upp á tugi eða hundruð milljarða. Bara greiðslan í ár, upp á 26 milljarða samkvæmt þessum samningi, nægir til þess að reka Landspítala í hátt í eitt ár, þar vinna 4.000 manns.

Við stóðum í mjög sársaukafullum aðgerðum á St. Jósefsspítala og úti um allt land, í niðurskurði upp á 4 milljarða og þjóðin sló skjaldborg um stofnanir sínar. Við erum að tala um 26 þús. millj. kr. bara á þessu ári plús alla áhættuna sem þjóðin er að taka um ókomna tíð. Frú forseti. Þetta gengur ekki.