139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem við öll þekkjum. Reyndar er það nú þannig að öll þjóðin þekkir það. Það er ein af ástæðunum fyrir því að málið er vel tækt til að fara til þjóðarinnar, hún hefur greitt atkvæði um það áður. Við erum reyndar hér vegna þess að hún sagði nei við síðasta samningi.

Ég ræddi um þjóðaratkvæðagreiðslu í 2. umr. um þetta mál. Til að mál séu tæk til þjóðaratkvæðagreiðslu þurfa þau að uppfylla nokkur skilyrði samkvæmt fræðunum. Það þarf að vera nokkuð skýrt um hvað er kosið og fólk þarf að vera vel upplýst. Ég efast um að nokkur þjóð sé jafn vel upplýst um jafnflókið mál eins og er í þessu tilfelli. Þar sem stjórnarandstaðan greip til varna á sínum tíma, kom í veg fyrir stórslys með því sem stjórnarliðar kölluðu málþóf — ég ætla ekkert að vitna í orð þeirra — er niðurstaðan sú að Íslendingar þekkja málið vel og þeir greiddu á sínum tíma atkvæði um það út frá þeirri vitneskju. Það var stórt nei. Við sitjum því ekki uppi með þá skelfilegu samninga sem hæstv. ríkisstjórn hefur hvað eftir annað reynt að keyra í gegnum þingið. Ég efast ekki um að í framtíðinni verður þetta notað sem dæmi um það í sögunni, vonandi þá sem undantekningartilvik, að þeir furðulegu atburðir hafi gerst að ríkisstjórn sem hefur lagt jafnmikið á sig til að koma jafnhættulegu máli í gegnum þingið hafi eftir sem áður setið.

Þessi ríkisstjórn, virðulegi forseti, er úr gúmmíi, hún er svona eins og gúmmíteygja. Allt það sem yrði til þess við venjulegar aðstæður, ekki bara á Íslandi heldur annars staðar, að ríkisstjórn færi frá gerist ekki hér. Það er mjög magnað að hugsa um þetta ef við rekjum þetta mál:

Fyrsti samningurinn kom í hús og hæstv. fjármálaráðherra var búinn að lofa þjóðinni því að um glæsilega niðurstöðu yrði að ræða en þegar upp var staðið hafði hæstv. ríkisstjórn ekki þingmeirihluta fyrir honum. Það hafði samt sem áður ekki neinar afleiðingar fyrir þá aðila sem báru ábyrgð á því. Við munum að því var breytt í lagafrumvarpi og sett var inn skilyrði og hæstv. ríkisstjórn tókst aftur að semja af sér. Úr varð lengsta umræða í sögu Alþingis og málinu var vísað til þjóðarinnar. Þá var samið aftur og hér sitjum við með samninginn. Menn spila ekki úr góðri stöðu með hann, að stærstum hluta vegna framgöngu ríkisstjórnarinnar því að þetta er fyrst og fremst pólitík. Það var augljóslega minni sveigjanleiki fyrir samningsaðila að ná niðurstöðu út af þeim samningum sem menn höfðu náð áður eða þeirri lendingu sem menn höfðu náð áður. Það skiptir kannski ekki miklu máli í stóra samhenginu. Þetta er eitthvað sem við sitjum uppi með, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Menn þurfa síðan að meta það hvað skást er að gera í stöðunni. Það er auðvitað ekkert auðvelt val.

Virðulegi forseti. Það sem er augljóst er það að ef við viljum hafa einhverja reglu í þjóðaratkvæðagreiðslu — það hefur ekki verið samhljómur í málflutningi stjórnmálamanna fram til þessa um þetta mál sama í hvaða flokki þeir eru. Þessu hefur verið þannig farið að menn hafa viljað fá þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þeir vilja fá svarið nei við einhverjum málum. En ef þeir hafa verið sammála málinu hafa þeir ekki verið hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki góð regla. Það er heldur ekki góð regla að segja að nauðsynlegt sé að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu ef mál eru umdeild, það er ekki vænleg leið til að hafa virkt og gott lýðræði. En í þessu tilviki er mjög erfitt að finna rök gegn því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við sjáum það ef við berum okkur saman við önnur lönd að þegar um það er að ræða að samningar sem eru skuldbindandi fyrir þjóðir eru lagðir fyrir þjóðaratkvæði — ég minni á samninga eins og Maastricht og Nice og annað slíkt — og þjóðir segja nei og það er samið aftur, er almenna reglan sú að þetta fer aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er nýja niðurstaðan lögð fyrir þjóðina. Ég tel eðlilegt að gera það í þessu tilfelli, hef lýst því yfir áður og hef ekki skipt um skoðun hvað það varðar.

Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vísaði til þess að þetta væri ömurlegt mál og það er alveg rétt. Mér hefur fundist, eins og í mörgum málum, að það séu stóru hlutirnir sem lítið eru ræddir. Einhvern veginn hafa menn tilhneigingu til að gleyma því hvernig þetta byrjaði allt saman. Jú, þetta byrjaði með því að við tókum upp meingallaða tilskipun Evrópusambandsins. Hvaða ár var það, virðulegi forseti? Það var 1999. Ég hef ekki lesið mig í gegnum þær umræður en miðað við það sem ég hef skoðað hef ég ekki séð að neinn sá aðili sem þar talaði hafi séð það fyrir sem varð. Reyndar er það svo að forustumenn í núverandi hæstv. ríkisstjórn sýndu alveg yfirgengilegt dómgreindarleysi, ævintýralegt dómgreindarleysi, og lögðu til — hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, með stuðningi, og ég held að hann hafi verið á málinu, hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar — að menn væru ekkert að binda sig við þessar 20.887 evrur. Nei, virðulegi forseti, það átti að ábyrgjast allt, (Gripið fram í: Vera góður við alla.) það átti sko að slá í gegn, ganga alla leið. Sem betur fer voru menn í meiri hluta í þessum þingsal sem felldu þessa tillögu en þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna greiddu henni atkvæði sitt.

Virðulegi forseti. Hver væri staða Íslands ef menn hefðu nú samþykkt þessa tillögu hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur? Hver væri staðan? Sem betur fer varð þetta ekki.

Innstæðutryggingar, eftir því sem ég best veit, eiga sér uppruna í Bandaríkjunum. Þar er það þannig að allar bankastofnanir eru undir. Ef ég man rétt búa þar um 300 milljónir manna og ég hef ekki hugmynd um hversu margar lánastofnanirnar eru. En hugmyndin á bak við tryggingar, eins og alls staðar er með tryggingar — og við þekkjum það, við höfum haft tryggingar lengi hér á Íslandi, höfðum tryggingar á tímum þjóðveldisins — er þannig að við verðum að hafa margt undir til að þær virki. Það dugar ekki að ég og hv. þm. Birkir Jón Jónsson ákveðum að stofna tryggingafélag ef við erum bara tveir í því. Það yrði aldrei gæfulegt, við mundum aldrei þola það. Þetta gengur út á það að mjög margir — það er ekki einu sinni nóg að allir hv. þingmenn væru saman í einu tryggingafélagi — greiði hóflegt iðgjald. Þá er gert ráð fyrir því að það þoli það eins og í þessu tilfelli að einn af hverjum þúsund, einn af nokkrum hundruðum falli og þá er iðgjaldið nægt til að dekka það. Það er hugmyndin á bak við þetta tryggingakerfi.

Það sem var sérstakt í Evrópusambandinu er að þeir voru ekki með einn sjóð yfir allt Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið heldur var hverju landi fyrir sig sagt að setja slíkt kerfi upp. Síðan deila menn um það hvort ríki eigi að ábyrgjast innstæðurnar eða ekki. Ókey, gott og vel.

Við sjáum síðan að þetta virkar ekki. Hvað gerir þá Evrópusambandið? Það kemur með nýja tilskipun. Út á hvað gengur hún? Að breikka grunninn? Nei, nei, virðulegi forseti, haldið er áfram með sömu vitleysuna, að hvert ríki eigi að byggja upp sitt kerfi. Og nú er hert á orðalaginu. Ég vona að ég lendi ekki í miklum vandræðum þó að ég vitni í frumtextann, þar sem ég sé enga aðra leið, þ.e. í ensku tilskipunina — ég skal ekki gera mikið af því, ég hef lent í örlitlum vandræðum hér í þessum ræðustól þegar ég hef gert það. Ég bið hæstv. forseta að sýna því skilning.

(Forseti (RR): Forseti gerir þá kröfu til hv. þingmanns að hann þýði jafnframt það sem hann les upp á erlendu tungumáli.)

Virðulegi forseti. Ég tek þessum dómi vel og skal reyna að gera það eins samviskusamlega og ég get.

Þá kemur að því að orðalag ákvæðisins um tryggingar á innstæðunum fer úr „shall stipulate“ í „shall insure“. Það hefur verið þýtt á þann veg, þ.e. nýja orðalagið, að ríkisvaldið verði að tryggja fjármögnun innstæðutryggingarsjóðsins. Nú er mjög erfitt að átta sig á því hver er munurinn á ríkisábyrgð og því að tryggja fjármögnunina, sérstaklega þegar við skoðum stöðu Íslands. Það er alveg ljóst að miðað við þær hugmyndir sem eru uppi — þetta hefur ekkert verið rætt, ég tók þetta upp hér í 2. umr., fór fram á að fjárlaganefnd skoðaði þetta. Hún kallaði á mig og hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, eins og hún minntist á í gær. Við fengum gott hljóð í nefndinni en ef nefndarmenn hafa gert eitthvað með þetta stórmál hafa þeir ekki upplýst hv. Alþingi um það.

Í öðru lagi hækka þeir innstæðutrygginguna úr 20.887 evrum í 100.000 evrur, þ.e. hver reikningur fer úr 3,3 milljónum í 15,8 milljónir. Svo að því sé til haga haldið skal iðgjald fjármálafyrirtækja líka hækka og greiðsluskilmálar verða hertir. Það breytir því ekki að það mun taka okkur 100 ár að komast upp í þá upphæð sem einn banki á Íslandi þarf ef hann fellur. Því á Íslandi er sú sérstaða að við erum með 70–80% af innstæðunum í þremur bönkum. Nú er ég ekki að tala um kerfishrun. Ég er bara að tala um að einn banki falli. Heildarinnstæðurnar eru ein landsframleiðsla, 1.500 milljarðar. Ég er hins vegar bara að tala um einn banka.

Ég sá minnisblað sem var dreift í hv. fjárlaganefnd, frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, og vitna beint í setningu þar, með leyfi forseta:

„Með tilliti til allra þessara öryggisráðstafana verður að ætla að líkur á kerfisáfalli eða falli eins eða fleiri af stærstu fjármálafyrirtækjunum séu afar litlar.“

Það eru litlar líkur á að einn falli og við erum að tala áratugi fram í tímann.

Virðulegi forseti. Nú er ég örugglega sá eini hér í þingsalnum sem veit ekki hvað gerist eftir 10 ár á Íslandi, ég er væntanlega bara einn um það, og ég er væntanlega líka einn um það að vita ekkert hvað gerist eftir 20 ár. Væntanlega vita hv. þingmenn stjórnarliðsins alveg hvað gerist þá, það bara hlýtur að vera, að vísu var ég með þeim í ríkisstjórn og þeir höfðu ekki hugmynd (Gripið fram í.) um að bankarnir væru að hrynja, en það er annað mál. Við skulum ekki fara út í það.

Nú liggur það fyrir að ef stefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga fellur ríkisbankinn. Ef fyrningarleiðin verður farin vita allir, það hefur verið upplýst í viðskiptanefnd, að Landsbankinn mun ekki þola það, svo einfalt er það. Þannig að það er nú ekkert minni hætta en svo að ríkisstjórninni stendur mikil ógn af ríkisbankanum. En látum það liggja milli hluta.

Það er hverjum manni ljóst að þetta kerfi gengur ekki upp. Frumvarpið hefur hins vegar verið nærri tvö ár í þinginu og stjórnarliðar og hæstv. ráðherrar, bæði núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og fyrirrennari hans, hafa gert hvað þeir geta til að keyra þetta mál í gegn. Nú er það þannig, og er þá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra engin undantekning á þeirri reglu, að í það minnsta helmingur af núverandi ríkisstjórn hefur mjög gaman af að fara til Brussel og láta taka mynd af sér með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar þar. Ég geri engar athugasemdir við það, ég held að það sé bara í fínu lagi. (Efnahrh.: Þú baðst sérstaklega um að fara þangað í haust.) Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kallar hér að ég hafi beðið sérstaklega um að fara til Brussel. Ég veit ekki alveg hvað hann á við með því en hins vegar fór ég þegar ég var ráðherra til Brussel til að tala við fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar út af máli sem sneri að haftaverslun á Íslandi með lyf, byggðri á reglum Evrópusambandsins. Þó að ég sé enginn aðdáandi Evrópusambandsins verður að gæta sanngirni. Þeir tóku því bara vel og ýmislegt var sett í gang til að takast á við þau mál.

Nú hef ég spurt hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem er hérna, hvenær hann ætli að fara og tala við fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar um það augljósa vandamál að þetta gengur ekki upp, um það augljósa vandamál að ef við verðum knúin til að setja þessa tilskipun af stað erum við að búa til gríðarlegan vanda sem enginn sér fyrir endann á. Ég vek athygli á því að innstæðurnar í bankakerfinu eru 1.500 milljarðar kr. — ein landsframleiðsla.

Virðulegi forseti. Í þessu stóra máli, sem er afleiðing af gallaðri tilskipun, ætlar hæstv. ríkisstjórn okkur að gera sömu mistökin aftur. Hugmyndin er sú að innstæðutryggingarsjóðurinn, sem er einn lögaðili, á annars vegar að vera með deild sem á að vera einhvers konar Icesave-deild, sem mun þá klárast og á einhvern hátt verða gjaldþrota, í það minnsta tóm, og síðan ætla menn að byrja algjörlega með nýja tóma deild til að byggja hið nýja innstæðutryggingarkerfi upp.

Ég verð að biðja aðdáendur Evrópusambandsins á Íslandi, sem eru nú margir hverjir í hæstv. ríkisstjórn, um að láta reyna á það hvort Evrópusambandið sýni sanngirni — öll Evrópa veit í hverju við höfum lent út af þessari tilskipun, það þarf ekki að halda langan fyrirlestur um það til að útskýra það, það vita það allir — þegar einn af aðilunum á Evrópska efnahagssvæðinu hefur augljóslega lent í vandræðum, hvort þeir séu tilbúnir til að koma til móts við okkur og sýna sveigjanleika í þessu máli. Mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja af hverju þetta hefur ekki verið tekið upp á þessum vettvangi. Eru hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar hræddir við Evrópusambandið? (GBS: Ástsjúkir.) Þeir tala oft um Evrópusambandið eins og himnaríki á jörðu. Og ef menn gætu ferðast til himnaríkis mundu þeir tala við Lykla-Pétur og jafnvel einhverja sem eru enn æðri á þeim vettvangi.

Ég vek athygli á því að þetta er ekki komið í gegnum EES-samninginn og af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess að Norðmenn eru að streitast á móti. Þeir eru að gæta hagsmuna sinna í þessu máli. Þá gera þeir allt hvað þeir geta og það eru þeir, ekki Íslendingar, sem hafa komið í veg fyrir að þessi tilskipun yrði innleidd í EES. Að vísu er þeirra vandamál allt annað en okkar, þeir eiga svo endalaust af peningum að þeir vilja hafa innstæðutrygginguna hærri en 100 þús. evrur. Það er önnur saga. En Ísland — sama hvað okkur finnst um þetta mál til eða frá hljóta allir að vera sammála um að þessi tilskipun hefur valdið okkur gríðarlegum skaða.

Ég hef ekki fundið ein einustu málefnaleg rök — og trúðu mér, virðulegi forseti, ég hef talað fyrir daufum eyrum í þinginu í tvö ár um þetta mál, og ætla ekki að taka allar mínúturnar sem ég hef tekið í þingnefndinni. Að vísu er komið hér minnisblað frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Þar er þessi setning, sem kom mér nokkuð á óvart, með leyfi forseta:

„Raunhæfara er að mati ráðuneytisins að ætla innstæðutryggingarkerfinu að mæta áfalli þegar innlánsstofnun sem er ekki kerfislega mikilvæg lendir í greiðsluþroti. Hér á landi hefur verið litið svo á að þrír stóru viðskiptabankarnir séu kerfislega mikilvægir, en aðrar innlánsstofnanir ekki.“

Með öðrum orðum á að setja innlánstryggingarkerfi fyrir allt annað en stóru bankana sem eru 70–80% af kerfinu.

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei heyrt þetta áður og ég fullyrði að enginn maður hefur tekið þetta jafnoft upp og sá sem hér stendur, það er 100% öruggt. Þetta er mjög áhugavert. Því hvernig ætla menn að tryggja innstæðurnar, 70–80% af innstæðunum?

Út af slóðaskap ríkisstjórnarinnar í málefnum sparisjóðanna — við fórum fyrir einu og hálfu ári fram á það að menn svöruðu hinni augljósu spurningu: Hvað ætla menn að gera við sparisjóðina eftir að fyrirætlan ríkisstjórnarinnar náði fram að ganga, þeir eru ríkisreknir, þeir eru ekki sparisjóðir eins og við þekkjum þá. Því var svarað með þjósti og hroka og útúrsnúningum. Þá var það upplýst í hv. viðskiptanefnd að faktískt koma nokkrar leiðir til greina. Ég held ég muni þær. Ein er að sameina sparisjóðina öðrum bönkum, þá væntanlega Landsbankanum. Önnur gekk út á stórar sameiningar á sparisjóðum, (GBS: Má það?) hvort þriðja leiðin var sameining á allri helstu starfsemi þeirra. Við vitum að bankakerfið okkar er of stórt, það vita það allir sem vilja vita. Hvað þýðir það? Það þýðir að það verða færri aðilar til að tryggja. Ég vek athygli á því að tryggingakerfi, alveg sama hvaða kerfi það er, gengur út á það að margir séu undir til að dreifa áhættu.

Virðulegi forseti. Þetta hefur lítið verið rætt og þetta er óþægilegt mál, þetta er óþægilega stórt mál. Það er óþægilega mikil áhætta í þessu máli. Hvað þýðir það? Þýðir það að það muni lagast með því að við hættum að hugsa það? Lagast eitthvað við það, ef við horfumst bara ekki í augu við þetta? Lagast eitthvað við það að við segjum: Heyrðu, það eru mörg önnur ríki í svipuðum vanda? Er eitthvað sem lagast við það? Að sjálfsögðu ekki, þetta fer ekki frá okkur — þetta bara fer ekki frá okkur. Það er alveg ljóst að við þurfum að vinna þetta í samvinnu við aðra og það eigum við auðvitað að gera.

Hér hefur verið sagt: Heyrðu, þetta tengist ekki alveg þessu máli beint og þar af leiðandi eigum við ekkert að vera að taka þetta upp núna. Auðvitað tengist þetta þessu máli beint. Meira að segja það sem snýr að gengisdómnum, sem nú er fallinn, tengist þessu máli beint. Þetta eru það stór mál sem um er að ræða. Ég mundi ætla það ef einhvern tímann verða tök á því og einhver staða fyrir okkur til að taka á þessu máli, fá einhverja niðurstöðu sem væri ásættanleg, í það minnsta fá niðurstöðu þannig að við vitum hver staða okkar er — því ég ætla stjórnarliðum ekki að vilja ekki fá eins góða niðurstöðu í þetta mál og mögulegt er, ég bara ætla mönnum það ekki. En til þess þurfa menn að horfast í augu við raunveruleikann. Ég mundi ætla að besti tíminn til þess væri núna þegar menn eru að ganga frá þessu erfiða deilumáli, að taka þetta mál sem tengist þessu beint og í eru ákveðin hættumerki, því það blikka öll viðvörunarljós.

Ég vil ekki vera í þeirri stöðu — nú vona ég að ekkert komi upp á, ég vona að næstu 100 árin lifi allir bankar og fjármálastofnanir á Íslandi góðu lífi og ekki þurfi að hafa neinar áhyggjur af þeim, ég vona (BJJ: Það er líklegt.) það svo sannarlega. En ef sagan endurtekur sig, sem hún hefur tilhneigingu til að gera, held ég að við viljum ekki sitja uppi með það eins og þingmennirnir frá árinu 1999, sem hugsuðu ekki fyrir hættunum — þeir höfðu að vísu þá afsökun að þeir höfðu ekki séð það sem við höfum séð, við höfum enga afsökun.

Virðulegi forseti. Ég hvet alla þingmenn, og þá sérstaklega hv. þingmenn stjórnarliðsins, til að skoða þennan þátt málsins. Hann er ekki smámál, hann er stórmál.