139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir góða ræðu þar sem hann fór dálítið vítt yfir sviðið er snertir framtíðarfyrirkomulag þessara innstæðutrygginga og á hvaða tímamótum við erum.

Við höfum mikið gagnrýnt hraðann á þessari málsmeðferð. Hv. þingmaður rakti það ágætlega áðan að hann hefði mætt á fund fjárlaganefndar í gær til að fara yfir þessi mál og sjónarmið sín og síðan hefði málið verið rifið út úr nefndinni í gærkvöldi. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sáttur við þetta vinnulag? Mér heyrðist á ræðu hans að hann sé mjög ósáttur við það og ég virði sjónarmið hans. En ég hefði gjarnan viljað sjá fleiri félaga hv. þingmanns í þingflokki Sjálfstæðisflokksins taka jafnskörulega á málunum og hann gerði hér áðan, svo að ég sé ærlegur í því.

Mig langar í öðru lagi að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það forsvaranlegt að efnahagslega áhættan verði öll á hendi okkar Íslendinga. Ef allt fer á versta veg, sem getur gerst eins og hv. þingmaður fór yfir, tökum við alla efnahagslega áhættu en Bretar og Hollendingar verða stikkfrí.

Í þriðja lagi fagna ég því að hv. þingmaður hóf mál sitt á að ræða um að hann væri, eins og ég skildi það, hlynntur því að þetta mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þaðan fengum við málið frá þjóðinni þar sem 98% þeirra sem tóku afstöðu til fyrri samninga sögðu nei. Ég tel að það fólk sem hefur þó komið málinu í þann búning sem það er núna eigi rétt á að segja sína skoðun og taka þannig endanlega ábyrgð á því hvaða ákvörðun verður tekin í þessu stóra máli. Það hefur sýnt sig að Alþingi hefur brugðist í þessu stóra prófi. Ég tel að stór hluti þeirra sem eru í þingsalnum sé ekki í takt við þjóðina fyrir utan.