139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvör hans.

Ég fór yfir það eins og við 2. umr. þessa máls hvað mér finnst um vinnubrögðin. Ég hef áhyggjur af því að ekki hafi verið tekið á því stóra máli sem ég fór yfir og er búinn að gera oftar í umræðunni. Það er grundvallaratriði í þessu samhengi, svo maður tali nú um hlutina eins og þeir eru, það er oft best að gera það.

Við erum komin í 3. umr. Það er ekki mikið sem við getum gert. Hæstv. ríkisstjórnin ætlar að keyra málið í gegn. Þá gerir hún það. Við gefum henni kannski tækifæri í nokkra klukkutíma til eða frá. Mér hefði fundist góður bragur á því ef menn hefðu unnið þetta öðruvísi. Ég ætla ekki að taka frá hv. fjárlaganefnd að hún hefur unnið mjög gott starf en þau dæmi sem hv. þingmaður nefndi eru óþörf.

Varðandi aðra spurninguna, um efnahagslegu áhættuna sem sé öll á Íslendingum, finnst mér þetta mál ömurlegt í það heila. Það eina sem við vitum um málið, alveg sama hvaða leið við förum, og það eina sem er öruggt er óvissan. Það sem hver og einn þingmaður verður að gera, og ég efast ekki um að allir hafi gert samkvæmt sinni bestu sannfæringu, er að meta hvað sé best fyrir þjóðina núna miðað við þá valkosti sem eru uppi. Ég held að það sé rétt mat að ekki verði komist lengra í samningaviðræðunum, sem betur fer eru menn komnir á þann stað. En valkostirnir eru erfiðir.

Í þriðja lagi varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu held ég að það skipti máli að hafa prinsipp í þeim. Málið hefur farið til þjóðarinnar, við erum að tala út frá því, og þess vegna eru mjög sterk málefnaleg rök fyrir því að (Forseti hringir.) hún komi aftur að málinu.