139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það sem vantaði kannski í annars mjög góða ræðu hv. þingmanns var svar hans, hvernig hann ætlaði að greiða atkvæði þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þetta mál. Ég held að ágætt væri að fá það fram.

Varðandi að þetta sé ómögulegt mál er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að málið er ömurlegt. Fram hafa komið mjög málefnaleg sjónarmið um að þótt við biðum ekki nema í sex mánuði með að afgreiða það frá Alþingi mundum við minnka áhættuþættina hvað snertir innheimtur m.a. og fleiri þætti, við mundum minnka efnahagslega áhættu þjóðarinnar. Ég held að tíminn hafi sýnt og sannað að landið fellur ekki saman þótt við höfum beðið í vikur eða mánuði með að klára þetta mál.

Að lokum vil ég segja og ítreka það að mér finnst óásættanlegt og mjög ósanngjarnt ef allt fer á versta veg í efnahagsþróuninni að öll efnahagsleg áhætta dæmist á íslenska þjóð, 300 þús. manns, þannig að reikningur á hvern landsmann verði 200 þús. kr. til 2 millj. kr. Ef menn skiptu þessu á milli sín og deildu upphæðinni á milli Breta og Hollendinga væri verið að tala um 1 evru eða 1 pund á mann þar. Það er himinn og haf þar á milli. Ég tel einfaldlega óásættanlegt að við samþykkjum þetta.

Mér finnst vera ákveðin tímamót þegar þingmaður Sjálfstæðisflokksins kemur hingað upp og lýsir því yfir að það sé rétt eða alla vega veigamikil rök fyrir því þar sem búið sé að greiða áður atkvæði um þetta mál að það fari aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eykur vonandi líkurnar á því að málið endi í þeim farvegi vegna þess að ég held að það hafi sýnt sig og sannað að sú samheldni sem þjóðin sýndi í síðustu atkvæðagreiðslu hafi skilað sér. Þjóðin á rétt á að segja skoðun sína á þessu máli.