139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram hjá hv. þingmanni. Ég held hins vegar að við verðum að horfa til þess að í þessari erfiðu stöðu hefur náðst góður árangur. Ég vil ekki síst þakka forustumanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, og sannarlega forustumanni Framsóknarflokksins í því máli líka, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, svo maður nefni þá sérstaklega.

Við vitum allir að það er eitt sem menn eru algjörlega sammála um og það er að við stöndum frammi fyrir samningi sem er allt annar og betri en þeir sem ríkisstjórnin hefur áður boðið þjóðinni upp á. (Gripið fram í.) Þetta er gríðarlega stórt mál. Ég er afskaplega ánægður með hvernig hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur beitt sér í málinu og þá ábyrgð sem hann hefur sýnt og hefur skilað þessari niðurstöðu, þó að hann hafi svo sannarlega ekki verið einn í því.

Ef við bíðum í tvö ár held ég að við vitum miklu betur en núna hver staðan verður. (Gripið fram í.) Það er bara þannig. Á því er enginn vafi. Ég er ánægður með að við náðum þó að klípa af fjármagnskostnaði Breta og Hollendinga þar sem þeir verða að bera í það minnsta hluta af fjármagnskostnaði sínum sjálfir. Ég hefði helst viljað losna við hann allan. Ég hefði viljað fá miklu meira. Ég hefði líka viljað hafa minni óvissu. (BJJ: Hvað ætlarðu að gera?)

Menn vita hvernig ég hef greitt atkvæði í þessu máli. Ég veit að hv. þm. Birkir Jón Jónsson mun ekki sofa af spenningi í nótt, það er ekki oft sem hann verður svona spenntur. Ég vil ekki eyðileggja þá spennu fyrir honum. Hann var síðast svona spenntur á jólunum. [Hlátur í þingsal.]