139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir réttilega yfirlýsingar um að ekki sé ríkisábyrgð á innstæðunum, hún eigi ekki við í kerfishruni, það hafi ekki verið hugsað til þess — er það ekki frekar augljóst? En ef forustumenn Evrópusambandsins meintu eitthvað með þessum orðum sínum hefðum við ekki þurft að standa í samningaviðræðum. Ef Evrópusambandið hefði ætlað og viljað hafa það þannig að ríkisábyrgð ætti ekki við ef kerfi, sem var sett samkvæmt þeirra tilskipun, yrði gjaldþrota þá værum við ekkert að ræða þetta mál. Það er bara þannig.

Það er svo magnað, virðulegi forseti, að meira að segja í Evrópusambandinu — og ég veit að það kemur mörgum hv. þingmönnum sem eru mjög hrifnir af Evrópusambandinu á óvart og ég tala nú ekki um fræðimönnum sem útskýra þessa hluti fyrir okkur — hugsar hver þjóð um sig. Við höfum fengið að finna æði illþyrmilega fyrir því. Hver þjóð verður bara að meta hvaða möguleika hún hefur í hverri stöðu. Þannig er það.

Við höfum sem betur fer náð vissum árangri. Við skulum ekki gera lítið úr honum, það er engin ástæða til þess. Við sitjum hins vegar uppi með mál sem við viljum ekki.

Hv. þingmaður spyr hvort Icesave verði í næstu fjárlögum og um alla framtíð eða næstu áratugina. Virðulegi forseti, ég veit það ekki. Við skulum vona að heimtur verði þannig að sem allra minnst leggist á íslenska þjóð ef þetta verður niðurstaðan. En ef ég vissi hver (Forseti hringir.) þróunin yrði nákvæmlega mundi ég ekki liggja á þeim upplýsingum.