139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má hafa mörg orð um þátt Evrópusambandsins í öllu þessu máli. Það er alveg ljóst að einhver ótti er þar á bæ við að okkar litla þjóð neiti að einkavæða skuldir einkabankans … (GÞÞ: Ríkisvæða.) ríkisvæða, fyrirgefið, einkaskuldirnar muni eitthvað bresta eða upp úr því trosna í þessu sambandi. Þess vegna hljóta Bretar og Hollendingar að leggja ofuráherslu á að við greiðum þetta. Það hlýtur að vera þess vegna sem Evrópusambandið sem slíkt kemur ekki til aðstoðar, eins og ég tel reyndar að hafi verið lofað.

Mig langar að velta upp öðru máli þessu tengdu. Í október 2008 lýsa forsvarsmenn atvinnulífsins m.a. því yfir að beiting hryðjuverkalaganna í Bretlandi gagnvart Íslendingum hafi valdið þeim gríðarlegu tjóni — ég er með blaðaúrklippu sem vísar til þess. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki réttmæt krafa, í ljósi þess að Bretar ollu Íslendingum klárlega gríðarlegu fjárhagslegu tjóni, að þeir standi skil á því gagnvart Íslendingum og bæti það tjón sem þeir ollu með beitingu hryðjuverkalaganna. Fram hefur komið að þau hafi haft mikil áhrif á viðskiptasambönd, greiðsluflæði og ýmislegt annað. Fyrir þinginu liggur tillaga eða er komin til nefndar um að við höfðum mál á hendur Bretum. Því velti ég því upp hvort það sé ekki eðlilegt að við gerum þá kröfu á Breta að þeir bæti okkur tjónið.

Svo er ágætt að halda því til haga: Er ekki rétt að bresk stjórnvöld hafi neitað að ábyrgjast innstæður (Forseti hringir.) banka á einni af Ermasundseyjunum vegna þess að þeir töldu að kerfið næði ekki þangað?