139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri þá framkoma þessarar gömlu vinaþjóðar okkar. Tengslin milli Íslands og Bretlands hafa verið mikil, ekki í gegnum áratugina heldur árhundruðin, og sem betur fer oftast góð þó svo að ýmsar deilur standi upp úr. Okkur hefur sem betur fer gengið ágætlega í stórum deilumálum gegn þeim. Ég hitti einu sinni Henry Kissinger og þegar hann vissi að ég væri Íslendingur skildi ég af viðbrögðunum — ég segi ekki að hann hafi signt sig — af hverju hann skrifaði í bók sína dæmið um hvernig smáþjóð kúgar stórþjóð og vísaði í landhelgisdeiluna. Okkur hefur því líka gengið vel í baráttu við Breta. En að beita hryðjuverkalögunum var fullkomið óþokkabragð af hálfu þáverandi forsætisráðherra þeirra, Gordons Browns, sem var að reyna að hífa sig upp í vinsældum heima fyrir með því að níðast á lítilli þjóð. Því miður voru hryðjuverkalögin þannig að honum tókst að beita þeim. Það var varað við því þegar þau fóru í gegnum þingið. Það er umhugsunarefni vegna þess að í breska þinginu var einmitt varað við að þeim yrði beitt í allt öðrum tilgangi en að berjast gegn hryðjuverkum. Þáverandi ríkisstjórn Verkamannaflokksins fullyrti að það yrði aldrei gert. Annað kom á daginn. Auðvitað eigum við að gera allt hvað við getum til að sækja rétt okkar og réttlæti.

Varðandi Ermasundseyjarnar er rétt að Bretar höfðu litla samúð með bönkunum þar. Bretar og Írar hafa hins vegar farið leið sem við fórum sem betur fer ekki. Þeir reyndu að bjarga bankakerfinu með því að dæla peningum skattgreiðenda í það. Það sér ekki enn þá fyrir endann á því. Vonandi fer það vel, en margt bendir til að það fari hrikalega illa. Undir forustu hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, fórum við aðra leið. Núna reynum við (Forseti hringir.) að koma honum í fangelsi eða meiri hluti hv. þingmanna samþykkti það. Ég held að kostnaður skattgreiðenda á þessu ári við að koma hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra í fangelsi sé um 200 milljónir.