139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega er það rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að verið er að taka ákvörðun um að leggja miklar byrðar á skattgreiðendur og skoða þarf þá ákvörðun í því ljósi og taka mjög upplýsta og yfirvegaða ákvörðun. Auðvitað væri gott að bíða. Það væri gott að bíða eftir því að óvissunni mundi létta í þessu máli og bíða eftir því að það næðist að koma eignum þrotabús Landsbankans í verð þannig að það lægi þá fyrir hvað fengist upp í þær kröfur vegna þess að mjög deilt er um hversu mikið það verður.

Varðandi sakamálarannsóknina er ágætt að bíða eftir því líka en það er einfaldlega ekki í boði. Ríkisstjórnin í landinu hefur ákveðið að keyra þetta mál í gegn og við þurfum að taka ákvörðun um það hvernig við ætlum að greiða atkvæði á morgun, skilst mér. Ég vona að það verði ekki í nótt en maður veit svo sem ekki hvað verður. Það er einfaldlega grundvallaratriði í þessu öllu saman. Við getum svo sem velt því fyrir okkur hvað ef hitt og þetta en við höfum einfaldlega ekki stöðu til þess. Hér erum við stödd í dag, umræðunni lýkur einhvern tíma í nótt og við þurfum að taka ákvörðun um málið eins og það liggur fyrir. Ég tel að það hefði verið rétt að bíða eftir því, eins og ég sagði áðan, að helstu óvissuatriðum væri komið á hreint áður en ákveðið var að leggja málið inn í þingið til lokaafgreiðslu. Það er hins vegar ekki í boði. Það þarf eiginlega að spyrja hv. þingmenn stjórnarliðsins eða stuðningsmenn þessa máls hvers vegna ekki er unnt að bíða. Það stóð vissulega í samkomulagi við Breta og Hollendinga að niðurstaða ætti að koma í þetta mál um áramót en sá tími er liðinn. Ég kannast ekki við að Bretar og Hollendingar standi á tröppunum og krefji okkur svara. Það hefur alla vega ekki verið upplýst hér. Það væri þá kannski ágætt hjá þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna að upplýsa hvað liggi á.