139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta svar. Þá langar mig til að spyrja þingmanninn, úr því að við erum ekki í tímahraki að hennar mati, um þær drápsklyfjar sem verið er að leggja á skattgreiðendur. Það er verið að ríkisvæða einkaskuldir óreiðumanna. Telur þingmaðurinn að um einhverjar hótanir frá Bretum og Hollendingum sé að ræða varðandi það að íslenska ríkið þurfi að standa í skilum með lán sem voru tekin árið 2006 vegna hinnar fyrri bankakrísu? Þá tók Seðlabanki Íslands lán upp á 1.000 milljarða evra sem er á gjalddaga árið 2011, það var byrjunin á bólunni og til stendur að greiða það upp á þessu ári, auk þess sem barnalánið svokallaða sem forverar Vinstri grænna á Alþingi tóku er líka á gjalddaga á þessu ári. Hefur þingmaðurinn einhverja tilfinningu fyrir því að erlendar lánastofnanir séu hreinlega að hóta ríkisstjórninni eða þeim aðilum sem telja sig fara með valdið hér á landi varðandi það að ekki fáist endurfjármögnun eða annað á þessum lánum ef ekki er gengið frá þessu nú í hvelli fyrir vorið? Hvers vegna er þessi asi akkúrat núna eða telur þingmaðurinn jafnvel að ríkisstjórnin óttist vilja þjóðarinnar? Vegna þess að undirskriftasöfnun á kjósum.is gengur mjög hratt og vel fyrir sig og Íslendingar taka fullan þátt í þeirri undirskriftasöfnun og vilja fá að greiða atkvæði um þessar himinháu byrðar sem verið er að leggja á þegna landsins. Er ríkisstjórnin hrædd við hótanir erlendis frá eða er hún hrædd við sína eigin þjóð?