139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég hef sterkar skoðanir á málinu en engu að síður verð ég að skilja það að ekki eru allir sammála mér, því miður, og ég ber virðingu fyrir því að menn byggja þá afstöðu á rökum sem þeir hafa komið fram með, m.a. í þessum ræðustól. Engu að síður er ég algerlega sannfærð um að við eigum ekki að hræðast að fara dómstólaleiðina.

Kjarninn í þessu máli er sá, auk þess að okkur ber ekki lagaleg skylda til að greiða kröfur Breta og Hollendinga, að við höfum ekki efni á að borga þetta. Ég sé ekki og hef enga sannfæringu fyrir því að við getum staðið undir þessum greiðslum. Mér finnast þau rök sem fram hafa verið færð varðandi greiðsluflæðið ekki sannfærandi. Við sáum það í andsvörum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra áðan að fátt var um svör um hvernig ætti að standa undir þessum skuldbindingum þótt maður mundi ætla að menn væru búnir að kynna sér það á ríkisstjórnarheimilinu hvernig það ætti að vera. Það vekur furðu mína að hæstv. ráðherra sé ekkert inni í því og virðist ekki hafa neinn áhuga á að kynna sér það, en þetta eru grundvallaratriðin í málinu.

Varðandi gagnkröfu á Breta og Hollendinga urðum við að sjálfsögðu fyrir gríðarlegu tjóni vegna þeirrar ákvörðunar Breta að beita hryðjuverkalögum á okkur og það eru að sjálfsögðu mótrök okkar í málinu. Bent hefur verið á það, m.a. í greinargerð Indefence um þennan samning, að öll óvissan sé okkar megin og það virðist ekki vera þannig að reynt sé að dreifa henni á samningsaðilana heldur liggi hún öll hjá okkur Íslendingum og það sé einn af þeim grundvallarþáttum sem gerir það að verkum að Indefence gat ekki sætt sig við þessa niðurstöðu. Það er gríðarlega stórt atriði. Ég tel rétt að við látum reyna á rétt okkar að þessu leyti líka ef það er einfaldlega ekki orðið of seint.