139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágæta ræðu. Hann kom víða við en ég sakna eins, hann ætlar kannski að gera það í seinni ræðu, ég veit það ekki, hann talaði ekkert um hvað gerist ef við segjum nei. Hvað gerist ef við segjum nei?

Til dæmis gætum við, frú forseti, unnið málið. Hvað skyldi þá gerast? Þá borgum við að sjálfsögðu ekki neitt og fáum væntanlega allan okkar kostnað endurgreiddan eins og aðrir sem vinna mál. Og við fáum æru um allan heim aftur því að þá getum við sagt: Allt þetta var ofbeldi frá hendi Breta og Hollendinga (BJJ: Er það ekki það sem þú vilt?) og við vorum alltaf í rétti. Á þessu eru ákveðnar líkur sem mér finnst að hv. fjárlaganefnd hafi algjörlega gleymt og vanrækt að fara í gegnum.

Svo gætum við tapað málinu létt með því að þurfa að borga 20.887 evrur plús einhverja refsivexti, það yrði ekkert þungbært, ekkert (BJJ: Bara svipað og þessir.) frekar en sá samningur sem við erum með núna fyrir utan að það tæki tvö, þrjú ár að fá niðurstöðu og þá vissum við enn betur hvað kemur út úr búinu.

Við gætum lent í verri málum sem væru t.d. jafnræðismál — að Icesave-innstæðueigendur hefðu ekki verið jafnsettir íslenskum innstæðueigendum. (BJJ: Þá halda neyðarlögin ekki.) Nei, það getur snúist um jafnræði hjá þrotabúinu, að þrotabúið hafi ekki meðhöndlað viðskiptavini sína á sama hátt. Ríkið ber ábyrgð á þrotabúinu af því að Fjármálaeftirlitið tilnefndi menn til að sjá um þrotabúið þannig að ríkið bæri væntanlega ábyrgðina en ekki þeir tilnefndu persónulega. Ef þetta lendir á þrotabúinu minnka greiðslurnar til Icesave.

Þetta finnst mér vanta í ræðu hv. þingmanns og það væri ágætt ef hann (Forseti hringir.) útskýrði það pínulítið betur.