139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var hlynntur því að veittur yrði lengri tími, þannig að það sé sagt. Mér finnst þessi asi athugaverður og líka að svona mál skuli vera rætt um miðja nótt. Ég sat hjá við atkvæðagreiðslu um að veita afbrigði þannig að þetta er ekki alslæmt. (BJJ: Gast verið á móti.)

En það sem ég saknaði og bað hv. þingmann að fara betur í gegnum ef hann gæti á þessum stutta tíma, tveim mínútum, var: Hvað telur hann að gerist ef við segjum nei? Hvaða tækifæri bjóðast og hvaða hættur liggja í því? Það hefur lítið sem ekkert verið rætt. Af því að hv. varaformaður fjárlaganefndar er mættur á fundinn vil ég segja að mér finnst til vansa fyrir nefndina að hafa ekki farið í gegnum það þannig að við gætum tekið raunverulega ákvörðun. Ef þetta skyldi nú fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og allt stefnir í — á vefsíðunni kjósum.is hafa 26–27 þús. manns meldað sig — (BJJ: Nýjar tölur á leiðinni.) væri mikilvægt, frú forseti, að þjóðin vissi hvaða hættur og hvaða tækifæri gæfust ef hún segði nei því að hún gæti sagt nei og hún gæti sagt já.

Mér finnst að þingið og sérstaklega hv. fjárlaganefnd hafi algjörlega vanrækt að upplýsa þing og þjóð um hvað gerist ef við segjum nei. Við erum búin að fara ítarlega í gegnum hinn kostinn, það að segja já. Því vil ég endurtaka spurningu mína til hv. þingmanns, að hann fari dálítið betur í gegnum það hvað hann sér af tækifærum og hættum í sambandi við að segja nei, af því að það hefur eiginlega ekkert verið rætt.

Í fyrri umræðu málsins þagði ég sérstaka til að undirstrika að það eru töluvert miklar líkur á því að við vinnum svona mál. Ég giska á að þær séu um 60–70%.