139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Einu sinni sem oftar erum við hv. þm. Pétur H. Blöndal sammála um flest atriði þessa máls. Hv. þingmanni verður tíðrætt um hugsanlega áhættu af dómsmáli sem ég er sammála honum um að liggi eiginlega þá eingöngu í þessari pólitísku áhættu. Þá spyr ég hvort hv. þingmaður sé þó ekki sammála mér um að ef þessi pólitíski dómstóll, eða dómstóll sem við óttumst að sé pólitískur, EFTA-dómstóllinn, kemst að þeirri niðurstöðu að Íslendingum beri að taka þetta á sig sé erfitt að færa rök fyrir því að menn ættu að borga meira en gert er ráð fyrir samkvæmt þeim samningum sem við erum að ræða núna. Þar er gert ráð fyrir því að Bretar og Hollendingar fái allt tjón sitt bætt og með vöxtum, með öllum kostnaðinum við að fjármagna þetta. Bretar og Hollendingar fá ekki jafnháa vexti sem er vegna þess að fjármögnunarkostnaður þeirra er ólíkur. Samningurinn gengur sem sé út á að þeir fái allt saman til baka.

Einnig spyr ég hvort hv. þingmaður sé ekki enn sammála mér og hv. þm. Pétri H. Blöndal, honum sjálfum, úr fyrri umræðu um að það sé mjög ólíklegt að Bretar og Hollendingar muni vilja að þetta mál fari fyrir dómstóla. Báðar niðurstöðurnar, bæði það að vinna og tapa, henta þeim afskaplega illa. Augljóslega hentar þeim illa að tapa en ef málið vinnst og Ísland verður dæmt til að ábyrgjast alla bankana sína, eru skilaboðin þá ekki þau að bankakerfi Evrópu sé á ábyrgð þeirra ríkja, þar með til að mynda hið valta bankakerfi Spánar, réttara sagt bankakerfið sem er í vanda vegna mikils taps af fasteignalánum, að spænska ríkið sé allt í einu komið í ábyrgð fyrir allt heila klabbið? Og það má nú varla við þeim fréttum.