139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við enn á ný í skjóli nætur að ræða Icesave-drauginn. Það má svo sannarlega segja að þetta sé draugur, Icesave hefur fylgt þessari ríkisstjórn síðan hún tók við. Hér er enn á ný verið að flýta málinu í gegnum þingið. Enn á ný áttar ríkisstjórnin sig ekki á því að hún er umboðslaus. Hún er umboðslaus vegna þess að Íslendingar tóku sig saman 7. mars í fyrra og höfnuðu Icesave-samningunum sem þá lágu fyrir með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og allir muna greip forsetinn í taumana eftir að hópur manna stóð fyrir undirskriftasöfnun í nafni Indefence. Núna stendur annar hópur fyrir undirskriftasöfnun og ég get glaðst yfir því að það gengur ekki síður vel.

Ríkisstjórnin áttaði sig ekki á því að eftir höfnun þjóðarinnar, bæði á frumvarpinu um Icesave og ríkisstjórninni sjálfri, átti hún að sjálfsögðu að ganga tafarlaust til Bessastaða og biðjast lausnar. Í hvaða lýðræðisríki mundi það sem við stöndum frammi fyrir nú líðast, að ríkisstjórnin sé komin heim með enn einn samninginn um að ríkisvæða einkaskuldir óreiðumanna sem íslensk þjóð og íslenskir skattgreiðendur bera alls enga ábyrgð á?

Það er alveg sama hvað ríkisstjórnin tekur sér fyrir hendur, svo sem lýðræðisumbætur eins og stjórnlagaþing sem hefur verið kappsmál hjá hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur í fleiri ár. Hæstiréttur þurfti að grípa inn í það ferli og dæma stjórnlagaþingskosninguna ógilda. Og haldið er áfram. Ríkisstjórninni dettur ekki í hug að sleppa völdum þótt þjóðin kalli svo sannarlega eftir því. Svo sannarlega kallar þjóðin eftir því að hér komi starfhæf ríkisstjórn sem hefur eitthvert annað markmið en hrúga skuldum á landsmenn. Ólögfest skal það vera. Okkur ber ekki skylda til að borga þær byrðar sem lagðar eru til og ég fer betur yfir það á eftir.

Við erum lýðræðisríki og þess vegna segi ég að valdið er hjá þjóðinni. Alþingiskosningar urðu ekki á milli þessara tveggja frumvarpa og ekki urðu alþingiskosningar eftir að þjóðin hafnaði Icesave 7. mars í fyrra. Þess vegna segi ég að ríkisstjórnin sé umboðslaus nú.

Það sem vekur líka athygli er vilji ríkisstjórnarinnar að halda uppi málsvörn fyrir Breta og Hollendinga. Það er nánast sama hvar borið er niður, alltaf skal talað í þá átt að þjóðin eigi að borga þetta, að Bretar og Hollendingar hafi meiri rétt en við sjálf á þessum greiðslum. Þetta er frekar óhuggulegt að horfa upp á þetta og frekar einkennilegt að standa í þessum umræðum klukkan að verða tólf á miðnætti. Við í stjórnarandstöðunni erum orðin vön því, við þingmenn Framsóknarflokksins erum orðnir vanir því að þurfa að standa næturlangt að ræða Icesave því þetta mál þolir vart dagsljósið. Hvar sjáum við svo ráðherrana sem eiga að sitja hér á hægri og vinstri hönd? Hæstv. fjármálaráðherra er víðs fjarri, hefur ekki sést í allt kvöld. Þó fer hann fyrir þessu frumvarpi.

(Forseti (RR): Forseti upplýsir hv. þingmann um að hæstv. fjármálaráðherra er í húsinu.)

Þá vil ég spyrja, frú forseti, er hæstv. forsætisráðherra í húsinu?

(Forseti (RR): Nei, hv. þingmaður. Hæstv. forsætisráðherra er ekki í húsinu.)

Þá gengur í salinn hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og telur sig vera ígildi ráðherra, veifar hendi og segir: Ég er kominn. Hvers lags er þetta? Ég var að spyrja eftir hæstv. ráðherrum. Má ég þá spyrja, frú forseti, er hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í húsinu þar sem þetta snýr mjög að efnahagsmálum Íslands?

(Forseti (RR): Hv. þingmaður. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er ekki í húsinu.)

Nei. Þarna sjáum við það, ágætu þingmenn, ágætu landsmenn. Svona er áhuginn hjá þessari aumu ríkisstjórn. Hér á að tala inn í nóttina á meðan þetta ágæta fólk, að undanskildum hæstv. fjármálaráðherra, situr kannski heima og horfir á umræðurnar í sjónvarpinu en að öllum líkindum er það farið að sofa. Hér skal unnið fram á nótt við að berjast við að koma þessum samningum í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni með hjálp þeirra sem eru úti um allt land að skrifa undir á kjósum.is til að reyna að fá liðsinni forseta. En ráðherrarnir láta ekki sjá sig í þinginu. Þetta er alveg galið, frú forseti.

Í öllum þessum málum hef ég talað mikið um lögfræðilega grunninn. Ég ætla ekki að endurtaka allar þær ræður en mig langar að fara yfir þrjá punkta sem snúa að þessu.

Kröfurnar eru í fyrsta lagi ólöglegar, að því leyti að ekki er hægt að krefjast skaðabóta á fyrirtæki sem hefur verið með ólöglega starfsemi. Við vitum að Landsbankinn sætir nú sakamálarannsókn sem fer fram hjá sérstökum saksóknara. Hvers vegna er ekki beðið eftir því hvaða úrslit það mál fær? Af hverju er ekki beðið eftir því að sjá hversu alvarleg þau brot eru sem grunur leikur á að hafi verið framin? Hafi ekki verið framin brot væri líka rétt að bíða eftir þeirri niðurstöðu því þá væri að minnsta kosti um löglega kröfu að ræða.

Í öðrum lagi er ekki um lagalega skuldbindingu að ræða. Sú krafa er ólögvarin líka því að samkvæmt reglum Evrópusambandsins og með þeirri tilskipun sem við höfum lögfest á Íslandi er hreinlega lagt bann við því að ríkið geti gengið í ábyrgð fyrir innstæðutryggingarsjóð og er það gert vegna samkeppnisreglna Evrópusambandsins. Sérstaklega er tekið til að eitt ríki megi ekki ábyrgjast innstæðutryggingar því það væri mismunun á milli landa. Það er enda eðlilegt því ef eitt ríki mundi bjóða ríkisaðstoð mundi allt fjármagn flæða til þess lands. Þetta hef ég fyrir löngu farið yfir í löngu máli og ætla ekki að endurtaka það.

Í þriðja lagi var ekki reynt að hefja gagnsókn í málinu og fara fram á það við Breta að þeir deildu með einhverjum hætti ábyrgð með okkur Íslendingum vegna hryðjuverkalaganna. Sú þöggun sem verið hefur í gangi varðandi hryðjuverkalögin sem Bretar settu á okkur skömmu eftir hrun er hreint með ólíkindum. Það er eins og ríkisstjórnin sé meðvitundarlaus. Það er eins og hún geti ekki fengið sig til að halda uppi rökum fyrir Íslendinga, halda merki Íslands á lofti. Kappsmálið virðist vera að koma þessum ólöglegu og ólögvörðu kröfum yfir á herðar Íslendinga.

Þetta voru þeir þrír punktar sem ég vildi fara yfir vegna þess að einhvern veginn hefur alveg gleymst í umræðunni að Landsbankinn gamli er til rannsóknar. Svo virðist vera að sá aðili sem var aðaleigandi hans, Björgólfur Thor Björgólfsson, njóti nokkurs konar friðhelgi því hann rekur fyrirtæki hér á landi. Í leyniskýrslu Seðlabanka Íslands sem ekki má birta kemur fram, með leyfi forseta, ég ætla að leyfa mér að lesa upp þó ekki sé nema eina staðreynd í þeirri skýrslu, að áætlað er að undirliggjandi hrein staða þjóðarbúsins sé neikvæð á bilinu 57–82% af landsframleiðslu í lok árs 2010 en ef eignum og skuldum Actavis sé haldið til hliðar sé hrein skuld aðeins á bilinu 18–38% af landsframleiðslu í árslok 2010. Þetta einkafyrirtæki sem er í eigu sama aðila og bar ábyrgð á Landsbankanum hækkar skuldastöðu þjóðarbúsins um fleiri tugi prósenta. Það kemur til vegna þess að fyrirtækið hefur heimilisfesti á Íslandi. Þetta er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir.

Talað er um að lánshæfismat landsins sé slæmt en þær gríðarskuldir sem Actavis stendur í við erlenda lánardrottna lækka lánshæfismat ríkisins. Heyrst hefur að Actavis skuldi Deutsche Bank 1.000 milljarða. Hin hliðin er sú að nú á að koma skuldum fallins banka sem var í eigu sama aðila yfir á þjóðina. Við skulum átta okkur á því að lendi Ísland í greiðslufalli þá lenda erlendar skuldir Actavis líka á þjóðinni. Það gerðist t.d. í Argentínu. Þá stofnuðu fyrirtæki dótturfélög í landinu og settu allar skuldbindingar sínar í þau. Þegar Argentína lenti síðan í greiðslufalli voru skuldir fyrirtækjanna ríkisvæddar og settar á herðar almennings vegna þess að fyrirtækin voru með heimilisfesti í landinu.

Það kemur fram að erlend lán eru gríðarlega há hér á landi. Allt frá september 2006 hafa verið teknir að láni 500 milljarðar kr. Ríkisábyrgðin sem gefin er upp er 1.300 milljarðar, samanlagt eru það 1.800 milljarðar og það er fyrir utan Icesave. Segjum sem svo að Icesave komi til með að kosta okkur 200 milljarða, þá eru ríkisábyrgð og erlendar skuldir orðnar 2.000 milljarðar. Frú forseti. Það sér það hver maður, (Gripið fram í.) hvert einasta skólabarn sem kann að leggja saman tvo og tvo, að íslenskir skattgreiðendur geta á engan hátt staðið undir þessu. Vinnubærir menn á almennum vinnumarkaði eru á bilinu 70–100 þúsund því ríkisstjórnin hefur líka rekið helstefnu í atvinnumálum. Hér fara fleiri hundruð Íslendingar af landi brott í hverjum mánuði vegna þess að þessi auma ríkisstjórn getur ekki einu sinni haldið uppi atvinnustigi. Hver á að borga skuldirnar? Og með hverju á að borga allar þessar erlendu skuldir? Jú, svarið er, úr því að búið er að framlengja samninginn til ársins 2046, um 35 ár, að við stöndum líklega frammi fyrir því, og það er ágætt að fólk átti sig á því, að þessar skuldir verða fyrir rest borgaðar með náttúruauðlindum. Líklega verða þessar skuldir borgaðar með rafmagnskaplinum sem Bretar og Hollendingar, aðallega þó Bretar, hafa áhuga á að leggja héðan til Bretlands því að öll orkufyrirtæki Bretlands og Evrópu eru að verða úrelt og kostar gríðarlega peninga að endurbyggja þau. Við eigum gnótt af köldu vatni, við eigum fiskimið, við eigum jafnvel olíu í vændum. Ísland er nefnilega gullkista. Ísland er auðlindaland sem hið auðlindasnauða Evrópusamband vantar. Það er sorglegt að horfa upp á að vinnuafl á Íslandi hefur engin tök á því að borga þær skuldir sem verið er að leggja á þjóðina, ekki nokkurn einasta möguleika.

Við stöndum líka frammi fyrir því að þetta gæti orðið fyrr en við höldum því að miðað við skýrslu Seðlabankans sem ekki má tala um og er enn trúnaður um er skuldastaðan verri en við reiknuðum með. En það virðist ekki skipta ríkisstjórnina nokkru einasta máli. Hér skal koma á ríkisábyrgð. Hér skal taka veð, hér skal láta Breta og Hollendinga hafa veð í lofti, láði og legi. Þetta eru kaldar staðreyndir.

Frú forseti. Mig langar til að ljúka ræðu minni í þessari umferð á staðreyndum sem birtust í Financial Times mánudaginn 13. desember og koma fram í skýrslu Peters Ørebechs sem hann skilaði, með leyfi forseta:

„Icesave-samningurinn ýtir undir þá tilhneigingu sem nú ríkir að veita bönkum ótakmarkaða ríkisábyrgð. Í þessu tilviki er hæpið að tala um lagaleg rök fyrir þörfinni á tryggingum og því síður verða færð sanngirnisrök fyrir henni. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands mundu aldrei verða við kröfum erlendra innstæðueigenda sem næmu þriðjungi (Forseti hringir.) af þjóðarframleiðslu ef einn af stóru bönkunum þeirra félli.“

Höfum þetta hugfast, frú forseti.