139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:52]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem fram kom í ræðu hv. þingmanns þegar hún rifjaðu upp þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave-málið, þar sem 98% þeirra sem þátt tóku greiddu atkvæði gegn Icesave-samningi ríkisstjórnarinnar, að hjá öllum siðuðum vestrænum þjóðum hefði það leitt til þess að sú ríkisstjórn sem hefði fengið slíka útreið segði af sér, en það gerði þessi ríkisstjórn ekki.

Saga þessa máls fyrir núverandi ríkisstjórn er auðvitað löng sorgarsaga og þarf svo sem ekki að rifja hana upp að öðru leyti en því að við munum að hún var gerð afturreka með Svavarssamningana svokölluðu, samningar Indriða H. Þorlákssonar sem fór fyrir sendinefnd Íslands fóru líka í vaskinn hjá hæstv. ríkisstjórn og nú er kominn til umfjöllunar nýr samningur í þinginu. Það eru líka komnar tillögur um að verði samningurinn samþykktur eða frumvarpið gangi málið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það getur gerst verði þær breytingartillögur samþykktar eða ef forseti Íslands beitir 26. gr. stjórnarskrárinnar til að vísa málinu til þjóðarinnar sem ýmislegt bendir til að muni gerast miðað við þá undirskriftasöfnun sem í gangi er.

En mig langar að velta því upp við hv. þingmann hver hún telur að staða ríkisstjórnarinnar sé gangi málið til þjóðaratkvæðagreiðslu og verði fellt þar. Hver er þá framtíð ríkisstjórnarinnar að mati (Forseti hringir.) hv. þingmanns? Telur hv. þingmaður að ríkisstjórninni verði sætt ef hún verður enn og aftur (Forseti hringir.) gerð afturreka með þetta mál?