139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili því með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að margt spennandi sé í spilunum. Ég kíkti á kjósum.is áður en ég kom í seinna andsvar og nú þegar hafa 27.311 skráð sig. Ég skora á Íslendinga og þjóðina alla að koma þessari tölu upp fyrir 30 þúsund fyrir klukkan átta í fyrramálið. Nú verðum við að standa saman eins og við gerðum í síðasta Icesave-samningi. Það er svo sannarlega gjá á milli ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar, það er stór gjá á milli þeirra flokka sem standa að ríkisstjórninni og þjóðarinnar. Ég hvet alla til að rita nafn sitt á kjósum.is.

Ég tek líka undir að spennandi verði að sjá hvernig þeim breytingartillögum sem liggja nú fyrir þinginu um þjóðaratkvæðagreiðslur reiðir af í atkvæðagreiðslunni á morgun. Ég hef fyrir mitt leyti og ég veit að margir þingmenn hafa áhuga á því að nafnakall verði viðhaft. Þá sjáum við í raun hvaða þingmenn það eru sem hafa vilja til að veita þjóðinni það brautargengi að taka þátt í þessu máli og hvaða þingmenn það eru sem virkilega meina það sem þeir segja um að þeir vilji færa þann rétt til þjóðarinnar að hún fái að kjósa um umdeild mál í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það þýðir ekki, frú forseti, að hafa það eingöngu sem stafi á blaði í kosningabaráttu að vilja þjóðaratkvæðagreiðslur. Á morgun reynir á það.

Að lokum, frú forseti: Ég hef skömm á ríkisstjórninni fyrir að við skulum þurfa að standa fram á nótt að ræða þriðja Icesave-samninginn. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar verða að hugsa sinn gang. Í síðasta lagi (Forseti hringir.) áætla ég að lýst verði yfir vantrausti á ríkisstjórnina þegar þjóðin hefur sagt sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu ef hún skammast ekki sjálf (Forseti hringir.) frá áður.