139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það kom fram í ræðu hv. þingmanns að rannsaka bæri hvernig haldið hefur verið á Icesave-málinu og ég er honum hjartanlega sammála um það. Það er mjög slæmt að sú rannsókn skuli ekki vera farin af stað því að hún mun eflaust verða viðamikil, velta þarf við mörgum steinum, fara í gegnum leyniskjöl og ýmislegt annað sem þarf að lúslesa. Við þurfum öll að leggjast á árar með að slík rannsókn fari fram sem fyrst.

Nú hefur önnur þingsályktunartillaga verið borin fram og er komin til nefndar sem fjallar um að höfða mál gegn Bretum vegna hryðjuverkalaganna. Verið er að rukka okkur um ákveðnar upphæðir sem við vitum í rauninni ekki hverjar eru. Bretar skulda okkur klárlega miklar fjárhæðir fyrir það tjón sem þeir ollu okkur. Ég velti fyrir mér, frú forseti, og spyr hv. þingmann hvort ekki sé rétt að hraða því máli þannig að við getum sótt mál á hendur (Forseti hringir.) Bretum og reynt að krefja þá um einhverja aura upp í þessa skuld.