139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:20]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að sjálfsögðu hraða því máli í gegnum þingið ef menn telja að íslenska ríkið sé í þeirri stöðu að geta sótt rétt sinn gagnvart Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga. Ef við teljum að við getum náð af þeim einhverjum fjármunum í gegnum dómskerfið vegna þess tjóns sem við höfum orðið fyrir þá styð ég auðvitað að það verði gert. Reyndar lagði ég fram frumvarp ásamt fleiri þingmönnum í árslok 2008, sem ég samdi ásamt Helga Áss Grétarssyni lögfræðingi, sem mælti fyrir um fjárhagslega fyrirgreiðslu íslenska ríkisins til handa þeim Íslendingum sem urðu fyrir tjóni vegna beitingar hryðjuverkalaganna og það frumvarp var samþykkt. (Gripið fram í.) Nú veit ég ekki hvort það hefur leitt til þess að íslenska ríkið hafi þurft að leggja út í einhvern kostnað vegna málaferla (Forseti hringir.) við Breta og Hollendinga en aðkoma mín að því að hvetja til málsóknar gegn Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga (Forseti hringir.) er þess eðlis að ég styð auðvitað málaleitan hv. þingmanns.