139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fullyrti ekkert um það að Ísland mundi vinna mál gegn Bretum ef Icesave-málið færi fyrir dómstóla. Ég sagði hins vegar að réttarstaða okkar væri sterk og sá lagalegi grundvöllur sem kröfur okkar á hendur Bretum og Hollendingum hefur byggst á væri ákaflega traustur og sterkur. En ég sagði einnig að í þessu máli eins og öllum öðrum væri auðvitað áhætta í því fólgin að fara með mál fyrir dómstóla og ekkert hægt að fullyrða um það hvernig niðurstaða slíks máls yrði.

Ég vil ekki taka undir það með hv. þingmanni að félagar mínir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafi bráðnað eins og smjör í málinu. Þetta snýst um hagsmunamat. (Gripið fram í.) Það eru þingmenn sem telja að hagsmunum landsins sé best borgið með því að ljúka málinu með þessum hætti en hv. þingmaður er ósammála því mati og hann er auðvitað frjáls með að hafa þá skoðun, ég geri engan ágreining um hana.