139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu þar sem birtist svolítið ný nálgun á málið, rætt um hugsanlega rannsókn. Rannsóknir eru mjög í tísku þessa dagana og ef ætti að rannsaka eitthvert mál hlýtur það að vera þetta mál. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um það.

Töluvert hefur verið rætt um hugsanlegt dómsmál, sérstaklega í andsvörum. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að ef til dómsmáls kæmi og ef svo illa færi að Íslendingar töpuðu málinu þrátt fyrir sterka stöðu lagalega, þá sé erfitt að færa fyrir því rök að menn ættu að greiða eitthvað meira en þegar er gert ráð fyrir samkvæmt því tilboði sem hér er til umræðu? Vegna þess að það gengur jú út á það að Bretar og Hollendingar fái allt sitt og meira að segja allan kostnaðinn við að fjármagna það.

Svo er spurning, getur hv. þingmaður tekið undir það með mér og hv. þm. Pétri H. Blöndal að það sé reyndar býsna ólíklegt að Bretar og Hollendingar muni vilja fara með málið fyrir dómstóla vegna þess að hvorug niðurstaðan henti þeim sérstaklega vel, tap augljóslega illa en líka ef þeir vinna og fá þá staðfestingu á því að allt bankakerfi Evrópu sé á ábyrgð ríkja Evrópu.