139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:33]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Munurinn á mér og hæstv. utanríkisráðherra er sá að ég vil að allir séu settir undir sama hatt. Ég óttast að hæstv. ráðherra sé mér ekki sammála um það. Tillaga mín um rannsókn á Icesave-málinu gengur út á að málið sé rannsakað frá A til Ö. Þá breytir engu hvort undir þeirri rannsókn sé hæstv. utanríkisráðherra eða meðreiðarsveinar hans í núverandi ríkisstjórn eða samflokksmenn mínir sem einhvern tíma sátu í ríkisstjórninni. Ég vil bara að málið sé rannsakað frá A til Ö, frá upphafi til enda, allar embættisfærslur, ákvarðanir og samskipti íslenskra stjórnvalda við bresk og hollensk stjórnvöld. Þar verði ekkert dregið undan og allt skoðað.

Svo vill til að fyrir liggur skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis þar sem farið er ofan í hluta Icesave-málsins, þ.e. þann hluta sem nær fram (Forseti hringir.) að hruni en ekki til þeirra atriða sem gerðust eftir hrun. Ég var að benda á að það þyrfti að fara ofan í það.