139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að nota tækifærið og rétta út sáttarhönd til hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að hann er fyrsti ráðherrann í hæstv. ríkisstjórn sem lýsir yfir stuðningi við tillögu mína um að fram fari rannsókn á Icesave-málinu. (Gripið fram í.) Ég held að við hæstv. utanríkisráðherra ættum að taka höndum saman og tryggja að þessi tillaga verði afgreidd á þinginu svo rannsóknin megi fara fram. Ég hef sagt að ég skil ekki af hverju þeir menn sem nú sitja í ríkisstjórn ættu að óttast að slík rannsókn færi fram ef þeir telja sig ekki hafa gert nein mistök, ef þeir telja að ríkisstjórnin hafi ekki gerst ber að neinni vanrækslu í garð íslensku þjóðarinnar og íslenskra hagsmuna. (Forseti hringir.) Ég fagna því yfirlýsingum hæstv. utanríkisráðherra og geri ráð fyrir að í framhaldi af þeim fái tillaga mín (Forseti hringir.) greiða leið í gegnum þingið.