139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:41]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í þau skipti sem ég hef komið í ræðustól og óskað eftir því að fá að taka til máls um fundarstjórn forseta hefur það verið vegna þess að iðulega hefur vantað forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í þingsal. Það hefur hins vegar gerst að hæstv. fjármálaráðherra hefur dúkkað upp um leið og ég hef stigið í pontu og ætlað að kvarta yfir fjarveru hans. Ég spyr: Hvar heldur hann sig eiginlega? Það ber svo lítið á honum svona rétt áður en ég ætla að taka til máls. Það hljóta að vera einhver leyniherbergi í húsinu.

Mig langaði að velta því upp hvort við ættum ekki, hæstv. forseti, að stefna að því í sameiningu að reyna að gera Alþingi að fjölskylduvænum vinnustað og hvort ekki sé kominn tími til að stjórn og stjórnarandstaða vinni saman að því að hér séu ekki næturfundir (Forseti hringir.) og menn fari varlega og hóflega á bjöllurnar svo það skaði ekki heyrn þingmanna sem óvart fara fram yfir ræðutímann.