139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er akkúrat málið, það er búið að bæta þessum almennu innstæðueigendum það tjón sem um er rætt, enda er það þannig eftir því sem breskir kunningjar segja manni að þegar farið er út fyrir Westminster eða það svæði veit enginn um hvað þetta mál snýst. Engir almennir Bretar eru að hugsa um þetta mál, þeir hafa áhuga á að koma til Íslands sem ferðamenn en eru ekki að velta þessu fyrir sér. Þetta er pólitískt mál, það er alveg ljóst.

Sem svar við spurningu hv. þingmanns hefur sá málflutningur sem hefur verið viðhafður af okkur stjórnarandstöðuþingmönnum mörgum hverjum, flestum sem betur fer en ekki þó öllum, verið dropinn sem hefur holað steininn. Með því að vilja ræða þetta mál til hlítar, með því að beita þeim aðferðum sem stjórnarandstaðan hefur til að koma málum í skikkanlegan farveg, hefur okkur tekist að bæta það. Okkur hefur tekist að laga það, það er klárt, og það er ekki stjórnarflokkunum að þakka. Við megum ekki gleyma því. En það er langt frá því, frú forseti, að málið sé unnið. Það er ekki unnið fyrr en búið er að sýna fram á og sanna að okkur Íslendingum beri ekki að borga þetta. Og annað, við getum ekki stigið þetta skref án þess að spyrja þjóðina.

Þingmenn úr þessum þremur flokkum sem við hittum í breska þinginu héldu þessu fram. Það voru kannski tvær raddir formanna nefnda á vegum Verkamannaflokksins, systurflokks flokks hæstv. utanríkisráðherra sem ég held m.a.s. að hann sé meðlimur í í dag, hann var það alltént, sem vildu ólmar að við greiddum þetta en aðrir þingmenn sögðu að þetta væri vandamál breskra (Forseti hringir.) innstæðueigenda sem lögðu fé sitt í áhættusjóð.