139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, menn tóku þarna áhættu og það hefur verið gengið alveg ótrúlega langt í því að bæta þeim það tjón þrátt fyrir að þeir hafi tapað í þeirri áhættu. Reyndar má benda á, af því að það er verið að benda á að Íslendingar þurfi að óttast að vera dæmdir fyrir mismunun, að mismununin bitnaði eiginlega á íslenskum innstæðueigendum ef hún bitnaði á einhverjum. Bresku og hollensku innstæðueigendurnir fengu nánast allt sitt bætt, í langflestum tilvikum, öll verðmætin sem þeir höfðu lagt inn fengu þeir til baka. Íslenskir innstæðueigendur fengu hins vegar bara krónurnar sínar tryggðar og þær féllu í öllum þessum hamagangi með falli gjaldmiðilsins og verðbólgu. Þar var ekki um að ræða þessa verðmætatryggingu sem breskum og hollenskum innstæðueigendum var veitt.

Úr því að talið berst að verðmætum held ég að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi komist að kjarna málsins þegar hann nefndi það að fáir utan Westminster vissu nokkuð um þetta mál. Þetta er einmitt mál embættismanna. Verðmætatapið mun hins vegar bitna á almenningi.

Ég veit að hv. þingmaður hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarstörfum svoleiðis að það væri fróðlegt að heyra hann setja þessar tölur aðeins í samhengi. Tölurnar verða oft og tíðum afstæðar þegar menn tala um milljarða. Hvernig var t.d. með niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, á Sauðárkróki og víðar? Hvernig er með þau verkefni sem sveitarstjórnir þurfa að velja á milli og hafna? Hvernig eru þær tölur sem þar er um að ræða, upphæðir sem snerta raunverulegt fólk í samanburði við þær tölur sem við erum að ræða hér (Forseti hringir.) varðandi þessa vexti?