139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má kannski deila um það hvort ég er kominn í andsvar við hv. þingmann, ég hafði frekar hugsað mér að koma á framfæri við hann ábendingu, beiðni eða ósk úr því að hann nefndi hér þjóðaratkvæðagreiðslur. Ástæðan fyrir því að ég beini orðum mínum til hans er sú að hv. þingmaður er formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Fyrir þinginu liggja tvær breytingartillögur sama efnis sem mæla fyrir um að verði frumvarpið sem við ræðum hér samþykkt gangi engu að síður heimild ráðherra til að staðfesta samningana til þjóðaratkvæðagreiðslu. Önnur er frá þingmönnum Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins, hin er frá félaga mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétri H. Blöndal.

Við umræðu um fyrri breytingartillöguna fyrr í dag kom fram að menn höfðu efasemdir um að hún væri þingtæk og töldu á henni lagatæknilega annmarka. Engar slíkar athugasemdir hafa komið fram um síðari tillöguna. Ég held að það sé mikilvægt og ég bið hv. þingmann sem formann þingflokks Framsóknarflokksins að kanna í sínum ranni hvernig best sé að fara með þessar breytingartillögur, þær eru sama efnis og leiða að sama markmiðinu, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla, þannig að hægt verði að koma málum þannig fyrir að greidd verði atkvæði bara um aðra tillöguna. Ég hygg að það sé skynsamlegra í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin, (Forseti hringir.) líka í ljósi þess að ekki hefur tekist sérstaklega vel til við kosningar í þessu landi upp á síðkastið. Er því mikilvægt (Forseti hringir.) að löggjöf um þær sé vönduð og að hún standist.