139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fram eru komnar tvær tillögur og einhverjar meiningar eru uppi meðal þingmanna um að önnur þeirra sé óþingtæk. Ég lít þó svo á að með því að samþykkja hana á dagskrá og greiða um það atkvæði hafi verið settur stimpill á að hún sé í lagi. Hvað um það, ég mun að sjálfsögðu verða við ósk þingmannsins og ræða í þingflokknum hvernig best sé að halda á þessum málum. Ég hafði reyndar séð fyrir mér sjálfur að ef þær yrðu báðar bornar upp, önnur gengur væntanlega lengra en hin, mundum við styðja þær báðar. Ég veit ekki til þess að í þingflokki framsóknarmanna séu uppi aðrar skoðanir en að þjóðin eigi að fá að greiða um þetta atkvæði, hvað sem mönnum finnst svo um endanlega afgreiðslu á samningnum sem slíkum. Það kunna að vera skiptar skoðanir um það.

Mikilvægast í þessu er að þjóðin fái að greiða um þetta atkvæði. Við þingmenn eigum að sjálfsögðu að taka af skarið með það í stað þess að leggja traust okkar á forseta Íslands sem hefur staðið sína plikt með þjóðinni hingað til í þessu máli. Forsetinn áttaði sig snemma á því að þetta mál gat skaðað þjóðina til langs tíma og beitti þar af leiðandi — að sjálfsögðu eftir að ljóst var að það var ósætti um þetta mál og mikill þrýstingur frá þjóðinni — því valdi sem hann hefur til að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mér finnst að þingið eigi að taka ómakið af forseta Íslands og samþykkja þá tillögu sem er líklegri til að skapa þá sátt sem þarf til að þetta fari til þjóðarinnar. Ég er sammála hv. þingmanni um að það hafi tekist afskaplega illa með kosningar á vegum Alþingis undanfarið, alveg skelfilega illa, og við hljótum að þurfa að læra af þeim mistökum.