139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:33]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir viðbrögðin við beiðni minni, hún er einfaldlega til komin vegna þess að, eins og ég hef áður sagt, við búum við það í landinu að vera með ríkisstjórn sem er ekki burðugri en svo að hún getur ekki skammlaust staðið að almennum kosningum. Í ljósi þess tel ég mikilvægt að komi til þess að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu út af Icesave-málinu sé grundvöllur slíkrar atkvæðagreiðslu traustur. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þeir þingmenn sem munu greiða þeirri tillögu atkvæði sitt hljóta að styðja báðar tillögurnar, enda eru þær sama efnis, þær hafa sama markmið, en þær eru lagatæknilega aðeins mismunandi.

Ég vildi beina þessari ábendingu til hv. þingmanns og hefði líka gert það gagnvart hv. þm. Þór Saari sem er 1. flutningsmaður hinnar tillögunnar væri hann staddur hér, einvörðungu til að tryggja að tillagan sé að forminu til í lagi og að það sé enginn vafi á að verði niðurstaðan sú að málið gangi til þjóðaratkvæðis sé það gert á traustum lagagrundvelli sem ekki verður vefengdur. Ég held að almenningur eigi það ekki skilið að ganga til kosninga sem vefengdar verða öðru sinni eða dæmdar ólöglegar.