139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls ætla ég að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson skildi við hann og gera athugasemd við það að við ræðum þetta svona lengi fram eftir. Ég ætla ekki að rengja heimild hæstv. forseta þingsins til að halda áfram fundi við þessar aðstæður. Ég geri hins vegar athugasemdir við þetta því mér er ekki ljóst hver rökin eru fyrir því að hafa jafnhraða afgreiðslu á þessu máli og raun ber vitni. Ég hef ekki heyrt efnisleg rök að það séu einhverjar dagsetningar sem skipti máli í þessu sambandi. Ég hef ekki heyrt að færð hafi verið rök fyrir því að þingið sé að fara í jólafrí eða sumarfrí eins og stundum er. Það eru engin efnisleg rök sem segja að umræðan þurfi að standa langt fram eftir nóttu. Mér er kunnugt um að þó nokkrir þingmenn eru enn á mælendaskrá og hugsanlega bætast fleiri við. Það kæmi mér á óvart ef þeir hv. þingmenn sem leiða málið í 3. umr., þeir sömu og leiddu málið í 2. umr., eins og hv. formaður og hv. varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, tækju ekki til máls á þessu stigi. Það kæmi mér verulega á óvart ef þessir hv. þingmenn ætluðu ekki að blanda sér í þessa umræðu. Það kæmi mér ekki síður á óvart ef hæstv. fjármálaráðherra tæki ekkert til máls við þessa umræðu.

Ég spyr en geri ekki ráð fyrir að fá svör frá hæstv. forseta og ætlast svo sem ekki til þess: Hvað veldur þessum asa? Hv. þingmenn hafa vísað til þess að hugsanlega stafi það af undirskriftasöfnun á vefsíðunni kjósum.is. Það kann að vera. Ég kann ekki svarið við því. Það kann að vera að verið sé að skerða tímann hérna í þinginu til þess að sá tími verði knappari sem hópur áhugamanna sem stendur að síðunni hafi til að safna undirskriftum. Það kann að vera, ég veit það ekki. Ef efnisleg rök eru fyrir hendi að hraða þessu máli með þeim hætti sem hér á að gera vildi ég gjarnan heyra þau. Ég hef setið hérna frá kl. 2 í dag og hef ekki heyrt þau.

Svo ég snúi mér að málinu sjálfu þá hefur margt komið hér fram í ágætum ræðum sem fluttar hafa verið við þessa umræðu og þá síðustu. Réttilega hefur verið bent á að ákveðin grundvallarsjónarmið eru gegnumgangandi í þessu máli. Annars vegar er það lagaleg skylda íslenska ríkisins eða íslenskra skattborgara að greiða þær upphæðir sem Bretar og Hollendingar gera kröfur um. Slíkar lagalegar skuldbindingar eru ekki fyrir hendi. Rök sem voru færð fyrir því í upphafi málsmeðferðar, vorið og sumarið 2009, að við yrðum að borga vegna þess að okkur bæri skylda til þess heyrast ekki lengur. Ekki eins og við heyrðum við þær umræður sem þá áttu sér stað. Nú eru höfð uppi hagsmunarök um að málinu verði að lenda í sátt og það kunni að kosta okkur eitthvað undir einhverjum kringumstæðum, það eru hagsmunarök. Ekki eins og gert var hér í þinginu og víða annars staðar vorið og sumarið 2009 þegar keyra átti þetta mál í gegn á þann veg að Íslendingum bæri ótvíræð skylda til að borga þetta, það væri bara spurning um greiðslufyrirkomulag og greiðsluskilmála. Við erum komin frá þessu og erum farin að ræða þetta út frá spurningu um einhvers konar hagsmunamat og einhvers konar áhættumat. Sem sagt, lögboðin skylda er ekki það vopn eða sá vöndur sem notaður er á okkur þingmenn til að fá okkur til að greiða þessu atkvæði.

Ég nefndi að nú snerist þetta fremur um hagsmunamat. Það snýst um að meta áhættu og reyna að átta sig á óvissuþáttum. Bæði verði samningur gerður á þeim forsendum sem hér liggur fyrir og eins ef samningur yrði ekki gerður. Það hafa verið gerðar tilraunir til að nálgast einhverja niðurstöðu í þessu. Það má deila um það hvort svörin sem liggja á borðinu eru fullnægjandi, en engu að síður eru komin fram rök með og á móti sem við þingmenn getum vegið og metið.

Til þess að gera langa sögu mjög stutta má segja að óvissu- eða áhættuþættirnir sem tengjast því að samþykkja samninginn sem nú liggur á borðinu séu þrenns konar: Það eru ákveðnir lagalegir óvissuþættir sem snúa fyrst og fremst að niðurstöðu í dómsmálum sem eru í gangi um gildi neyðarlaga o.s.frv. Það eru þættir sem lúta að gengis- eða gjaldmiðlaáhættu sem hafa kannski fengið mesta athygli upp á síðkastið. Í þriðja lagi, hvað fæst úr þrotabúi Landsbankans og hvenær verður það til reiðu til að borga kröfur tengdar Icesave-reikningunum. Hversu mikið fæst úr eignasafninu og hvenær verður hægt að borga út úr því? Um þetta eru verulegir óvissuþættir eins og þeir sem fylgst hafa með umræðunni þekkja.

Ég get tekið undir það sem flestir hafa sagt hér í dag að horfurnar, þegar þessi samningsdrög liggja fyrir, eru miklu betri en í desember í fyrra. Spár um verðmæti eignasafns Landsbankans eru jákvæðari núna en þær voru á þeim tíma. Engu að síður er fyrst og fremst um mat að ræða sem getur verið háð ýmsum óvissuþáttum. Ég trúi þeim fullyrðingum að eignasafn Landsbankans líti betur út en var þegar Icesave 2, eins og sá samningur er kallaður, var samþykktur hér á þingi. Eignasafnið er trúlega meira virði, þó með fyrirvörum um óvissu.

Vaxtaþátturinn er líka betri í þessum samningi en í Icesave 2, hann er hagfelldari. Það er álitamál hversu hagfelldur hann er í öllum samanburði og öllu samhengi. Það er ekki vafi á því að hann er hagstæðari en hann var. (SKK: … Svavarsvextirnir …) Miklu hagstæðari en Svavarsvextirnir eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vísar til.

Það eru ákveðnir þættir sem vissulega líta betur út og ég held að áferð samningsins sé líka á margan hátt betri en var. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað í dag og í fyrri umræðum um þetta mál. Við erum með betri samning í höndunum. Útlitið er trúlega betra en það var þegar þetta mál fór síðast í gegnum þingið. Hversu miklu betra geta menn deilt um. Við höfum heyrt að sumir telja, þar á meðal þeir sem hafa mælt með því að við samþykktum þennan samning, að þetta sé tíu sinnum betri samningur. Líklega þyrftum við bara að borga 47 milljarða úr ríkissjóði til að standa skil á þessum greiðslum í staðinn fyrir allt upp undir 470–480 milljarða kr. Þetta sjónarmið hef ég heyrt frá fólki sem ég tel að sé ekki að bulla. Þetta sjónarmið kom m.a. fram hjá samninganefndarmanni á blaðamannafundi í Iðnó þegar þessi samningsdrög voru kynnt í byrjun desember, 47 milljarðar í samanburði við 470 milljarða. Það munar dálítið miklu.

Í frumvarpinu og þeim textum sem því fylgja eru reyndar ráðagerðir um lægri upphæðir í þessu sambandi. Við erum engu að síður að tala um mun á upphæðum sem getur numið tugum eða jafnvel hundruðum milljarða.

Eftir stendur, ég játa að það veldur mér enn þá áhyggjum, að áhættu- og óvissuþættir eru enn þá fyrir hendi. Eins og bent hefur verið á í umræðunni síðustu klukkutíma eru allir áhættuþættirnir Íslandsmegin. Það er Ísland og Íslendingar sem bera áhættuna. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og fleiri orðuðu það þannig að Bretar og Hollendingar fá sitt eins og þessi samningur er formaður. Ef eitthvað fer úrskeiðis, ef eitthvað fer öðruvísi en ætlað var eykst kostnaðurinn sem við Íslendingar þurfum að greiða. Ég dreg ekki í efa að undir allra, allra bestu kringumstæðum gætum við komist tiltölulega létt frá þessu. Ég dreg það ekki í efa ólíkt því sem áður var. Ef allra, allra bestu skilyrði væru fyrir hendi þyrftum við sennilega lítið að reiða fram úr ríkissjóði, ég viðurkenni það. En ef illa færi gæti áhættan leitt til þess að úr ríkissjóði þyrftum við að greiða 200 milljarða, jafnvel hærri fjárhæðir, sem eru gríðarlegar fjárhæðir. Ég endurtek, áhættuþættirnir liggja Íslandsmegin ekki hjá Bretum og Hollendingum.

Það er kannski þess vegna sem ég fyllist miklum efasemdum þegar ég skoða þetta mál. Allir ganga út frá því að þarna séu frjálsar og fullvalda þjóðir að semja. Það hvílir ekki lagaskylda á okkur, en það er samt samið þannig að áhættuþættirnir liggja allir Íslandsmegin. Ég get ekki skilið þetta mál öðruvísi.

Hér hefur verið rætt um dómstólaleiðina og áhættu sem kynni að fylgja henni. Það væri kannski réttara að kalla það áhættuna að samþykkja ekki samninginn. Auðvitað er engin vissa fyrir því að málið fari yfir höfuð fyrir dómstóla, eins og bent hefur verið á hér í umræðunni. Íslenska ríkið hefði hvorki hagsmuni af því að fara með þetta fyrir dómstóla né hefði frumkvæði að því. Það er óvissa um hvað Bretar og Hollendingar mundu gera ef Íslendingar samþykktu ekki þetta samkomulag. Það má alveg færa rök fyrir því að ef Bretar og Hollendingar teldu sig hafa sterka stöðu til að fara dómstólaleiðina hefðu þeir þegar gert það. Það má færa sterk rök fyrir því. Við vitum það ekki.

Það er alveg rétt sem lögmennirnir og lögfræðingarnir sem fjárlaganefnd spurði benda á að þegar mál fer fyrir dómstóla er óvissa um niðurstöðuna. Það er athyglisvert að í álitsgerð þeirra treysta þeir sér ekki til að komast að ótvíræðum niðurstöðum. Ég er ekki hissa á því. Ég held að flestir vandvirkir og varkárir lögfræðingar hefðu skilað svipuðum svörum. Það er líka athyglisvert þegar spurt er um dómstólaleiðina, svo við nefnum hana því nafni, kemur fram á fleiri en einum stað að þeir eru ósammála um afstöðu sína, niðurstaða þeirra er ekki einróma. Þar eru óvissuþættir. Þegar við vegum og metum þessa óvissuþætti þurfum við að leggja mat á það hvert okkar fyrir sig, hvort við teljum að það séu rök fyrir því að samþykkja samninginn með þeim áhættu- og óvissuþáttum sem honum fylgja, það er hægt að gera það. Það er líka hægt að láta ógert að samþykkja þennan samning. Vissulega felst í því ákveðin óvissa og ákveðin áhætta. Niðurstaða okkar hlýtur að mótast af því hvernig við metum þessa áhættuþætti. Það þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við það þó við hv. þingmenn komumst að mismunandi niðurstöðum, en við þurfum þá (Forseti hringir.) bæði að geta rökstutt þá afstöðu og við þurfum líka að geta staðið við hana.