139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mundi orða svar mitt þannig að bein krafa breskra og hollenskra stjórnvalda á Íslendinga eða kröfur milli tryggingarsjóða eða hvernig sem við lítum á að það sé gert, slík krafa verður ekki til fyrr en búið er að undirrita og ganga frá þessum samningi, þangað til er engin krafa. Ég álít að það sé engin kröfugerð á borðinu, engin staðfest lögformleg krafa. Það er því alveg rétt að það er býsna harkalegt yfir höfuð að þurfa að borga vexti af kröfu sem ekki er til, það er býsna harkalegt. Með því er ég ekki að segja að ekki sé hægt að stofna til slíkrar kröfu, sem er þá gert á þeim forsendum að leysa t.d. milliríkjadeilu eða eitthvað þess háttar, sem er vel hugsanlegt og ekki ólögmætt í sjálfu sér. Það er ekki ólögmætt að stofna til einhverrar slíkrar greiðsluskyldu á grundvelli milliríkjasamnings, ég viðurkenni það.

Ég get hins vegar deilt þeim sjónarmiðum með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að mér finnst auðvitað mjög sérkennilegt ef sú staða kemur upp að íslenska ríkið og íslenskir skattborgarar þurfi að reiða fram háar fjárhæðir til greiðslu á skuld sem í upphafi var engin skuld.