139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson fór varfærnislega en vel yfir málið í ræðu sinni áðan og ég bind töluverðar vonir við hv. þingmann. Hann nefndi í upphafi ræðu sinnar að það væri sérkennilegt hvernig staðið væri að umræðunni hér í lok þessa máls og hvernig farið hefði verið með það til að mynda í nefndinni, þessi asi sem allt í einu kom á menn, þessi flýtir að reyna að keyra það í gegn, og velti fyrir sér hvort það kynni að vera til þess að losna við að fá fleiri undirskriftir. Það er verið að safna undirskriftum á vefsíðunni kjósum.is og af því að ég veit að hæstv. forseti hefur aðgang að alnetinu í tölvu sinni hvet ég hæstv. forseta til að nota tækifærið og skrá sig á þennan lista. Um það bil 30 Íslendingar skráðu sig á hann meðan hv. þm. Birgir Ármannsson hélt ræðu sína þótt klukkan væri að ganga tvö um nótt. Það er mikill þrýstingur, og eðlilega, á það frá íslenskum almenningi að hann fái að hafa eitthvað um þetta mál að segja. Ég hallast að því að hv. þingmaður sé sammála mér um það.

Þetta tengist líka spurningunni um dómsmál. Það hafa verið færð rök fyrir því að það sé kannski ólíklegt að Bretar og Hollendingar vilji að þetta mál fari yfir höfuð fyrir dómstóla, öll rök hníga að því. Við skulum í því samhengi minnast þess að það voru íslensk stjórnvöld, íslenska fjármálaráðuneytið sérstaklega, sem sáu til þess að viðræður fóru aftur af stað. Bretar og Hollendingar kölluðu ekki eftir því þannig að asinn er allur hjá íslenskum stjórnvöldum, hvort heldur með tilraunum fjármálaráðuneytisins til (Forseti hringir.) að hefja aftur viðræður eða af hálfu ríkisstjórnarinnar nú að keyra þetta mál hér í gegn í skjóli nætur.