139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru út af fyrir sig ekki mörg efnisatriði sem ég þarf beinlínis að svara í andsvari hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég hef ekki enn þá heyrt efnisleg rök fyrir því hvers vegna þessu máli er hraðað svona á lokastigum málsins. Ég veitti því athygli eins og aðrir að hraðinn jókst til muna eftir að undirskriftasöfnunin hófst á netinu. En það kann vel að vera að það séu einhver mjög sterk efnisleg rök tengd einhverjum dagsetningum sem gera það að verkum að Alþingi þarf endilega að greiða atkvæði um þetta á morgun. Ég hef bara ekki heyrt þau. Það væri út af fyrir sig fróðlegt ef þau gætu komið fram við þessa umræðu.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna hef ég líka fylgst með þessari undirskriftasöfnun og mér finnst mjög merkilegt hve margir hafa skráð sig á stuttum tíma. Mér sýnist það vega svolítið á móti því sjónarmiði sem stundum hefur verið haldið fram opinberlega, að áhugi almennings á Icesave-málinu sé einhvern veginn fyrir bí og dauður. Ég upplifi það alls ekki þannig og tel að þessi undirskriftasöfnun á netinu sem hefur gengið ótrúlega vel síðustu sólarhringa sýni þvert á móti að áhugi meðal hins almenna borgara á þessu máli er mikill og að uppi eru mjög heitar skoðanir í samfélaginu á þessu og mikill vilji til að fari með einhverjum hætti til þjóðaratkvæðagreiðslu að nýju.