139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Nú flyt ég síðustu ræðu mína í þessu stóra og mikla máli. Ég ákvað að nota þessar 5 mínútur til að fara enn og aftur yfir málið.

Það er svolítið sérstakt að málið sé statt þar sem það er núna. Ég hafði lengi vonað að því mundi ljúka með öðrum hætti. Það kann reyndar að vera að þjóðin taki það í sínar hendur, sem ég vona svo sannarlega, og þá veit maður ekki hvað verður um þann gamla kunningja sem kemur reglulega inn í þingið, Icesave. Það er ekki eins og þetta sé mál sem maður muni beinlínis sakna, það er ekki þannig. Þetta er mál sem flestir eru held ég orðnir dauðþreyttir á, jafnvel leiðir á, en það er slíkt risamál, frú forseti, að við getum ekki leyft okkur að láta leiða eða það að við séum orðin þreytt á því ráða för okkar, ráða því hvernig við afgreiðum það. Málið er það stórt og viðamikið að það er algjörlega útilokað að láta það líða hjá af leiða eða einhverju slíku.

Ég segi enn og aftur: Það er verið að leggja einkaskuld á íslenska þjóð sem hún ber enga ábyrgð á. Almenningur á Íslandi ber ekki nokkra ábyrgð á þeim fjármunum sem þarna töpuðust heldur urðu þeir til í einhverjum bankaleik, græðgisleik. Bretar og Hollendingar ákváðu að bæta innstæðueigendum sínum þær upphæðir sem þar voru án þess að spyrja Íslendinga. Þeir gera síðan kröfu á Íslendinga að greiða þeim þessar upphæðir en áður beita þeir hryðjuverkalögum sem valda Íslendingum gríðarmiklu tjóni. Enn höfum við ekki haft dug í okkur til að krefja Breta um bætur vegna þeirrar óhæfu að skella hryðjuverkalögum á íslenska þjóð og íslenskan almenning. Í mörgum blaðagreinum hafa forsvarsmenn fyrirtækja í atvinnulífinu bent á hvaða afleiðingar það hafði fyrir íslensk fyrirtæki og Ísland. Það hefur einnig oft komið fram í þessum ræðustól. Við hljótum því að gera þá kröfu að Bretum verði sérstaklega svarað fullum hálsi og til þeirra verði sóttar bætur af hörku fyrir þá ósvinnu sem þeir beittu okkur.

Icesave-víxillinn sem sumir þingmenn vilja færa þjóðinni í upphafi árs 2011 er óútfylltur. Við vitum ekki hver niðurstöðutalan verður. Það er eitt af því sem gerir það að verkum að það er algjörlega óásættanlegt að samþykkja slíka ráðstöfun. Það er líka óásættanlegt að gera það undir þeim kringumstæðum að vera kúguð til að taka á okkur þessa ábyrgð. Þar fremst í flokki fara vitanlega Bretar og Hollendingar með stuðningi Evrópusambandsins sem vakir yfir þessu öllu og síðast en ekki síst, sem er nú reyndar mjög sorglegt, eru ákveðnar Norðurlandaþjóðir sem við höfum talið standa okkur nærri með þeim í klúbbi að kvelja og pína okkur Íslendinga til að taka á okkur skuldbindingar sem okkur ber ekki að gera.

Frú forseti. Það er óásættanlegt að þessu máli skuli vera hraðað í gegnum þingið með næturfundi. Hvers vegna, frú forseti? Við höfum ekki fengið nein rök eða upplýsingar um hvað liggi í rauninni á, ekki eitt orð um hvers vegna það skuli gert. Auðvitað læðist að okkur sá grunur að það sé vegna þess að nærri 28 þús. Íslendingar hafa nú þegar skrifað undir yfirlýsingu um að þjóðin eigi að fá að segja álit sitt á þessu. Ég spái að þeim muni fjölga mjög hratt á næstu klukkutímum, í fyrramálið og á morgun. Ég vona svo sannarlega að tekið verði mark á því.

Frú forseti. Það er algjörlega óásættanlegt að taka þátt í að leggja þær byrðar á þjóðina sem um ræðir.