139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo takmarkaður tími í 3. og síðustu umræðu að ég gat ekki lokið almennilega máli mínu áðan. Ég verð því að nota tímann og fara í andsvör við samþingmann minn. Það gerir ekkert til því að ég á enn þá eina og hálfa mínútu eftir.

Nú er ég búin að gera eins og ég get til að koma með rök fyrir þingið, fyrir ríkisstjórnina en það er einbeittur vilji ríkisstjórnarinnar að koma þessum skuldaklafa á þjóðina án dóms og laga — án dóms og laga. Við skulum hafa það alveg á hreinu hvernig þetta mál er vaxið. Okkur ber ekki skylda til að greiða þessar innstæður. Þessi krafa er ólögvarin, hún er ólögleg og þar af leiðandi skiptir ekki nokkru máli hvaða vaxtaprósenta er á þessum svokölluðu samningum sem búið er að gera í óþökk þjóðarinnar. Eins og ég sagði í dag er svo sannarlega gjá á milli ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar í þessu máli. Það er ekki í fyrsta sinn. (Gripið fram í.) Ég hef þá trú að ríkisstjórnin þurfi, komi þetta til með að verða samþykkt á morgun, að hrökklast frá völdum. Ég veit að samtakamáttur þjóðarinnar er slíkur eins og undirskriftasöfnunin í dag og í kvöld hefur sýnt. Svo margar undirskriftir munu safnast að forsetinn (Gripið fram í.) verður að virkja 26. gr. stjórnarskrárinnar. Málið verður í höndum þjóðarinnar eftir það. (Gripið fram í.)

Hér eru tvær þjóðaratkvæðagreiðslutillögur. Hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni líður mjög illa yfir þessu, (Gripið fram í.) enda reiknaði ríkisstjórnin ekki með að landsmenn mundu sýna þann samtakamátt (Forseti hringir.) sem þeir hafa gert með undirskriftunum á kjósum.is. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)