139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni. Forseti Alþingis er forseti allra þingmanna. Það að ganga fram með þremur flokkum af fimm og breyta dagskrá þessa fundar af þeirri ástæðu að einn þingmaður ríkisstjórnarflokkanna þurfi að fara til útlanda er mjög einkennilegt. Menn héldu jafnvel að flýtirinn stafaði af því, og sögur voru komnar af stað um að forseti Íslands væri erlendis og flýta þyrfti þessu máli til að handhafar forsetavalds gætu undirritað lögin síðar í dag. Ég hef það hins vegar staðfest að forsetinn er heima. Ég skil því ekki hví slíkur asi er á þessu máli sérstaklega vegna þess að með tilkomu nýs meiri hlutar á þingi, hins svokallaða þríflokks, er nægur meiri hluti fyrir málinu og þess vegna ætti viðkomandi þingmaður, sem þarf að fara til annarra landa í dag, að hafa fullt ferðafrelsi án þess að raska störfum þingsins.