139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við göngum hér til atkvæða um Icesave 3. Ég held að óhætt sé að fullyrða að allir séu búnir að fá sig fullsadda af Icesave. Engu að síður erum við hingað komin og þurfum að taka afstöðu í málinu.

Það liggur fyrir að okkur ber ekki lagaleg skylda til að ganga að því að greiða kröfur Breta og Hollendinga. Mikil óvissa felst í því að segja já en jafnframt felst mikil óvissa í því að segja nei. Þetta er erfið ákvörðun sem allir þingmenn þurfa að taka. Ég er þess fullviss að hver og einn hefur lagt það niður fyrir sér, farið yfir rök og gögn í málinu, og komist að niðurstöðu í bestu samræmi við eigin sannfæringu. Það hef ég a.m.k. gert og ég hef fulla trú á því að allir hér inni geri það í dag.

Ég er því fylgjandi að málið fari fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu vegna forsögu þess og ég tel að það verði að gerast til að einhver lúkning náist.