139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ekki þykir mér þetta vera gleðistund, hvorki nú né allar götur frá því Bretar og Hollendingar stilltu okkur upp við vegg vegna Icesave-skulda einkabanka og fengu til liðs við sig alþjóðavarðhunda fjármagnsins, hvort sem var í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða Evrópusambandinu, aðila sem eina ferðina enn hafa sýnt að þeim er meira gefið um einkaeignarréttindi en mannréttindi þegar þjóð í þrengingum þarf að forgangsraða.

Lengi vel var ég reiðubúinn að afsaka öll axarsköft íslenskra stjórnvalda á þeirri forsendu að aðili sem beittur er ofbeldi sé ekki sjálfráður gjörða sinna og verði að skoða þær í því samhengi. Þetta á við um þær skuldbindingar sem gefnar voru af Íslands hálfu allt frá því í október 2008. Þess vegna vildi ég lengi vel ekki gera mikið úr mótsagnakenndum málflutningi einstaklinga í þingsal allt árið 2009, einstaklinga sem sögðu eitt haustið 2008 og allt annað árið 2009 og enn annað nú. En þjóðin komst að niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu í byrjun árs 2010. (Forseti hringir.) Þá hófst nýtt tímabil. Ákveðið var að stokka upp á nýtt, ný samninganefnd var skipuð og komu þar margir að. Ísland hafði styrkt stöðu sína og er niðurstaða samningaviðræðna eftir því. Ekki er saman að jafna því sem nú liggur á borðinu (Forseti hringir.) og sem var í árslok 2009. Niðurstaða í þessu máli getur aldrei orðið þess eðlis að við fögnum henni. (Forseti hringir.) En niðurstaða er hún og á forsendum sem við mörg hver, ekki öll, samþykktum og verðum að horfast í augu við. Ég segi já.