139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði í fyrra sinn, í það minnsta, um hvort þjóðin fái að segja álit sitt á þeim samningi sem nú liggur fyrir. Þjóðin hefur gert það einu sinni áður í þessu máli og það með glæsibrag. Það er því mjög eðlilegt og rétt að málið fari aftur til þjóðarinnar.

Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að þingmenn stjórnarflokkanna leggist á árar með okkur hinum til að tryggja að þjóðin fái að segja álit sitt á málinu. Það er engin skömm að því, það er styrkur fyrir þingið ef svo verður. Við eigum ekki að þurfa að leggja traust okkar eða þjóðin að leggja traust sitt á forseta Íslands þegar kemur að svo stóru og miklu máli. Ég hugsa að við getum treyst því að hann muni reynast þjóðinni stoð og stytta eins og hingað til en við þurfum hins vegar að gera veg Alþingis verðugri í þessu máli. Ég legg því eindregið til að þingmenn sameinist (Forseti hringir.) um að segja já við þessari tillögu sem og ég geri.