139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:16]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að það er löngu tímabært fyrir hið háttvirta Alþingi að festa í sessi með hvaða hætti á að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu, með hvaða mál og hve stór hluti þjóðarinnar eigi að geta krafist þess að mál komi til þjóðarinnar.

Við greiðum nú atkvæði um hvort að lokinni atkvæðagreiðslu um það frumvarp sem hér liggur fyrir, og nefnt hefur verið oftar en ekki Icesave, eigi að ganga til þjóðarinnar eftir að Alþingi hefur sagt sitt og menn eru ekki á eitt sáttir um það. Ég segi já fyrir hönd þjóðarinnar um að hún eigi að fá að greiða atkvæði um þá niðurstöðu sem Alþingi tekur. Ég er ekki með því, frú forseti, að varpa ábyrgðinni af sjálfri mér, ég tek ákvörðun í þingsal um þessi lög en ég treysti þjóðinni líka til að taka afstöðu til þess sem þingið gerir. Því segi ég já, frú forseti.