139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Maður verður að reyna að sýna því skilning að einhverjir muni vilja samþykkja þetta nýjasta Icesave-tilboð. Ríkissjóðir Bretlands og Hollands eru í miklum vandræðum. Það er verið að hækka námsgjöld í breskum háskólum til að mynda. Hugsanlega vilja einhverjir leggja eitthvað af mörkum til að styðja ríkissjóði þessara landa og kannski fleiri Evrópuríkja. Hugsanlega óttast menn þvinganir. Reyndar sagði hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson áðan að þessi samningur væri gerður á jafnréttisgrundvelli, þar væru engar þvinganir sem skýtur svolítið skökku við vegna þess að aðrir félagar hans í Sjálfstæðisflokknum hafa einmitt haldið því fram að niðurstaðan væri til komin vegna þvingana, hinn sterki væri að þvinga hinn veikari. Menn geta haft ýmsar ástæður fyrir því að vilja fallast á þetta nýjasta tilboð og er rétt að reyna að sýna því skilning.

Það er hins vegar ekki hægt, það er hreinlega ekki hægt fyrir Alþingi að ætla að samþykkja þetta án þess að biðja þjóðina um leyfi. Í fyrsta lagi er búið að vísa málinu til þjóðarinnar sem komst að niðurstöðu með mjög afgerandi hætti. Þetta er ný tillaga að lausn þess máls. Í öðru lagi er verið að biðja þarna um að farið verði í raun fram úr því sem lögin heimila. Það er verið að biðja um hluti sem þingið hefur varla (Forseti hringir.) heimild til að gera, a.m.k. ekki án þess að biðja þjóðina sérstaklega um leyfi.

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn segir?)

Ég ætla að segja nei.

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn segir nei.) [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Hann segir bæði já og nei.)

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn segir já.)