139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þegar Icesave-samningar, kallaðir Icesave 2, komu til atkvæða í þinginu í lok desember 2009 voru greidd atkvæði um tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Henni var hafnað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og það stefnir í að það sama gerist nú. Ég bendi reyndar hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna á að hér mun fara fram önnur atkvæðagreiðsla þar sem menn geta hugsanlega skoðað hug sinn að nýju.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mikilvægar. Þær eru vandmeðfarnar, það þarf að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort þær eru eðlilegar, heppilegar og rétta leiðin sem fara skal hverju sinni. Í þessu máli er svarið einfalt. Forsaga málsins, allur aðdragandi, þjóðaratkvæðagreiðslan í fyrra og margt fleira hlýtur að leiða okkur að þeirri niðurstöðu að nú þegar hillir í endalok þessa máls (Forseti hringir.) á tilteknum forsendum verði það þjóðin sem á síðasta orðið. Ég segi já.