139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í upphafi síðasta árs fékk þjóðin það úrlausnarefni að taka afstöðu til þeirra verka sem ríkisstjórnarflokkarnir kláruðu hér í þinginu, svokallaðir Icesave-samningar 2. Þjóðin greiddi atkvæði með þeim hætti að 98% þeirra sem kusu sögðu nei, sem afhjúpaði þann dómgreindarskort sem ríkisstjórnin hafði í því máli.

Nú ætlar sami meiri hluti, sem framdi það óhæfuverk þá, að hafna því að þjóðin fái að ráða því hvernig við klárum þetta mál. Maður veltir því fyrir sér: Hvar er lýðræðisástin? Hvar eru allar umbótatillögurnar sem ríkisstjórnin ætlaði að leiða hér inn?

Ég hafna þessu algjörlega og vísa allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni í þessu máli. (Forseti hringir.) Það eru engar lýðræðisumbætur og ríkisstjórnin ætti að sjá sóma sinn í því að leyfa (Forseti hringir.) fólkinu í landinu að eiga síðasta orðið í þessu máli. Ég segi já.

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn segir já.)