139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:38]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það stendur skýrt í stefnuskrá Hreyfingarinnar, sem á rætur sínar í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar og við vorum kosin inn á þing út á, að almenningur á Íslandi og Ísland eigi ekki að axla ábyrgð vegna Icesave-samninganna, það stendur skýrum stöfum. Það stendur líka skýrum stöfum þar að notast eigi við þjóðaratkvæðagreiðslur í miklu meira mæli í öllum mikilvægum málum, út á það vorum við líka kosin.

Það stendur hins vegar ekkert í stefnuskránni um Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Ég leyfi mér að leiðrétta þann misskilning hv. þm. Þráins Bertelssonar, það er ekki stafur um Evrópusambandið í þeirri stefnuskrá sem við vorum kosin út á.

Ég segi já við þessari tillögu líka því að hér er einfaldlega verið að vísa mjög mikilvægu máli til þjóðarinnar til þess að taka ákvörðun um. Hér er verið að tala um skattlagningu áratugi fram í tímann sem ég treysti þjóðinni til að taka ákvörðun um og hún ein á rétt til að taka ákvörðun um það.