139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:43]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem við greiðum atkvæði um núna hefur sama markmið og sú sem var felld áðan, að Icesave-málið gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Útfærslan er örlítið önnur en í þeirri tillögu en látum það liggja á milli hluta.

Ég tek undir það með formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, að umræða um þjóðaratkvæðagreiðslur hefur ratað í töluverðar ógöngur. En í mestu ógöngurnar hefur ratað hæstv. forsætisráðherra því enginn þingmaður hefur talað meira úr þessum ræðustól fyrir mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna og það sama má segja um fylgismenn ríkisstjórnarflokkanna. Síðan þegar til kastanna kemur er ekkert að marka fyrri yfirlýsingar þessa ágæta fólks þegar það fær loksins tækifæri til að vísa mikilvægum málum til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú hafa þau (Forseti hringir.) hins vegar tækifæri til að sjá að sér og skipta um skoðun (Forseti hringir.) í þessari síðari atkvæðagreiðslu og við skulum vona að þau geri það áður en henni lýkur.