139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og tillögumaður réttilega gat um hefur Alþingi í raun þegar mótað stefnu efnislega í þeim anda sem hér er lagt til og að uppistöðu til eru þessar aðgerðir komnar til framkvæmda eða eru í fullum gangi. Ég lít því svo á að það þurfi enga sérstaka samþykkt um það á nýjan leik. Það má nefna að sérstakur saksóknari hefur þegar byggt upp samstarf sitt við sambærilegar stofnanir, ekki síst Special Fraud Office í Bretlandi og evrópska samstarfsaðila. Skilanefnd og slitastjórn gamla Landsbankans hafa ráðið í sína þjónustu öfluga erlenda lögfræði- og rannsóknarendurskoðendahópa sem hafa rannsakað þau mál og það er að leiða til aðgerða á vegum skilanefndar nú og slitastjórnar til að reyna að hámarka endurheimtur til búsins.

Þá má nefna að á vegum stjórnvalda og undir forustu fjármálaráðuneytisins er að störfum nefnd lögfræðinga sem metur framvindu mála og skoðar þá möguleika að ríkið sjálft höfði skaðabótamál. Ég held því að það megi fullyrða að framkvæmdarvaldið er að reyna að uppfylla að fullu og öllu það sem því var fyrir sett af Alþingi haustið 2009 og svo verður gert áfram. (Forseti hringir.) Þessi tillaga er því óþörf og ég greiði atkvæði gegn henni.