139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það liggur fyrir að samningaleiðin er reynd til þrautar í þessu máli, þetta er lokatilraun til að útkljá þessa deilu með samkomulagi þeirra þriggja þjóða sem hlut eiga að máli. Það eru góðar horfur á því að þær fjárhæðir sem á endanum gætu lent á íslenska ríkinu verði óverulegar og mjög vel viðráðanlegar, vonandi í mesta lagi fáeinir tugir milljarða kr. og þar með langt frá því og mjög langt frá því að verða stærsti reikningurinn sem við berum vegna hrunsins.

Það væri fólgin í því mikil áhætta fyrir okkur að ganga ekki að þessu samkomulagstilboði og gæti orðið landinu dýrt í töpuðum tíma við endurreisnina, glötuðum hagvexti, áframhaldandi óvissu og loks gæti sjálf niðurstaðan að endingu orðið okkur mjög dýrkeypt.

Það er siðaðra manna háttur að leysa deilumál, ef hægt er, með samkomulagi. Menn verða stórir af því að ljúka málum með samkomulagi (Gripið fram í.) en ekki af því að halda tilgangslausu stríði áfram (Forseti hringir.) stríðsins vegna. Ég bind loks vonir við að okkur takist að koma þessu máli af höndum okkar og við getum snúið okkur að uppbyggingunni af alefli.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að gefa ræðumönnum hljóð. Þingmaðurinn segir já?)

Ég segi já.