139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Sú ákvörðun sem við stöndum nú frammi fyrir er í aðra röndina ákvörðun sem lýtur að því hvort við yfir höfuð höfum áhuga á að leysa deilumál við nágrannaþjóðir okkar með samningum eða ekki. Ég tel að hér sé kominn fram ásættanlegur samningur. Saga þingsins geymir fjölmörg dæmi um það að þegar til slíkra samninga hefur verið gengið áður hafa þeir sem hafa verið andsnúnir þeim stigið upp og sagt: Landráð! Svik við íslensku þjóðina! Og sú saga er að endurtaka sig hér.

Ég tel langskynsamlegast fyrir okkur að leggja mat á það hvort hinn valkosturinn, að láta reyna á réttarstöðu sína, sé betri fyrir íslensku þjóðina en sá að ganga að þeirri niðurstöðu sem fengist hefur eftir tveggja og hálfs árs samningaviðræður við viðsemjendur okkar. Ég hef komist að skýrri niðurstöðu. En þeir sem eru annarrar skoðunar hafa ekkert leyfi til að stíga fram og fullyrða við íslensku þjóðina að við sleppum undan öllum skuldbindingum með því að láta reyna á réttarstöðu okkar. Það er rangt, það falsmálflutningur og þingið á að hefja sig upp yfir slíka hluti í jafnalvarlegu máli og við ræðum hér. Það er ekki þannig að við stöndum frammi fyrir þeim valkosti annars vegar (Forseti hringir.) að sleppa við allar kröfur eða hins vegar að fallast á þessa niðurstöðu. Það er rangur málflutningur og ég frábið mér hann í þessum sal. Ég segi já.